Ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:46:42 (6963)

1998-05-27 10:46:42# 122. lþ. 134.93 fundur 412#B ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi# (aths. um störf þingsins), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:46]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er á ferðinni stórmál sem á sér langan aðdraganda en kristallaðist síðast árið 1996 í tíð þessarar ríkisstjórnar og þessa Alþingis sem nú situr eða þessara alþingismanna. Almenningur eða Landsbankinn, banki allra landsmanna, hefur tapað a.m.k. 800 millj. og enn einu sinni er spurt: Hver er ábyrgur og hvers vegna var ekki gert neitt í málinu fyrr samanber öll þau gögn sem hafa legið fyrir í málinu?

Hæstv. bankamálaráðherra fór augljóslega með rangt mál í þinginu vorið 1996 þegar hann svaraði hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur um þessi mál og málsvörn hans að aðeins hafi verið um óundirbúna fyrirspurn að ræða er alls ekki nógu sterk í ljósi þess að hann hafði öll tiltæk gögn tveimur mánuðum fyrr eins og nú hefur verð skjalfest. Nú eru það ríkisstjórnarflokkarnir sem eru að hengja hvor annan og karpa um hvor sé sekari, Kjartan Gunnarsson, formaður bankaráðsins og skjólstæðingur Sjálfstfl., eða Finnur Ingólfsson, bankamálaráðherra Framsfl., og það dylst engum að fjármögnunarfyrirtækið Lind hefur starfað í skjóli Framsfl. og framkvæmdastjóri þess er vel þekktur framsóknarmaður. Ég sakna þess að hafa ekki formenn stjórnarflokkanna hér en vonandi verða þeir hér síðar þegar málið verður tekið upp utan dagskrár. En núna er meginmálið það að orðið hefur alvarlegur trúnaðarbrestur á milli Alþingis og hæstv. bankamálaráðherra og á því þarf að taka með viðeigandi hætti. Ég sé sjálf ekki margar færar leiðir í því efni en það gengur alls ekki að varpa ábyrgðinni á hendur Alþingis.