Ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:48:58 (6964)

1998-05-27 10:48:58# 122. lþ. 134.93 fundur 412#B ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að týna ekki aðalatriðum þessa máls í deilum um tölur eða aðra slíka hluti sem eru hverfandi í þessu samhengi. Það sem hér er aðalatriðið er að sami hæstv. ráðherra og hefur þegar orðið uppvís að því að leggja rangar upplýsingar fyrir Alþingi gerir nú tilraun til þess opinberlega og í fjölmiðlum að varpa ábyrgð af eigin herðum yfir á Alþingi. Það hafi þá verið Alþingi sem átti að hlutast til um málið sökum þess hve alvarlegt það var. En engu að síður liggur fyrir að sami hæstv. ráðherra brást upplýsingaskyldu sinni til Alþingis. Ráðherra stóð í bréfaskriftum við formann bankaráðs Landsbankans. Ráðherrann hafði undir höndum skýrslu Ríkisendurskoðunar og ráðherra tekur störf sín ekki mjög alvarlega ef hann áttar sig ekki á því að hér var um alvarlega og stóra hluti að ræða.

Herra forseti. Því miður lyktar málið af því að hæstv. ráðherra hafi verið að gera á þessum tíma tilraun til að þagga málið niður, að málið hafi verið óþægilegt fyrir hæstv. ráðherra og flokk hans. En það sem snýr að Alþingi í þessu máli og er óhjákvæmilegt að tekið sé á eru þessi samskipti og það er eðlilegt, herra forseti, að þau séu rædd undir þessum lið. Ég fór fram á það í gær að hæstv. forseti hlutaðist til um að þetta mál yrði tekið fyrir í forsætisnefnd. Það er tvöföld ástæða til þess að bera þá ósk fram nú. Það verður einhvern veginn að koma þessum málum í farveg, að fara yfir þessi samskipti hæstv. ráðherra við Alþingi og embættisfærslu hans í því sambandi. Forsætisnefnd verður í kjölfar þess að ráðherra hefur reynt að varpa ábyrgðinni á Alþingi að taka þetta mál fyrir.