Fyrirkomulag umræðu um störf þingsins

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:56:19 (6969)

1998-05-27 10:56:19# 122. lþ. 134.94 fundur 413#B fyrirkomulag umræðu um störf þingsins# (um fundarstjórn), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. forseta að ég bað um orðið þegar hæstv. ráðherra var að ljúka máli sínu í fyrsta sinn vegna þess að ég taldi mig þurfa að svara ýmsu sem hann sagði. Aftur á móti tók ég eftir því að hæstv. forseti gaf ýmsum öðrum orðið á undan mér og mér fannst það eðlilegt þar sem ég taldi að hann mundi bíða með að gefa mér orðið þangað til komið væri að lokum umræðunnar þannig að ég fengi þó a.m.k. að svara. Það er alveg ljóst að ég bað um orðið í lok fyrri ræðu hæstv. ráðherra. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá nokkrum manni.

Ég verð að segja það að hér hefur málum verið heldur betur drepið á dreif hjá hæstv. ráðherra. Ég verð því miður, herra forseti, að biðjast undan þeim dylgjum sem komu fram í máli hæstv. ráðherra fyrr í umræðunni.

Eitt er ljóst: Ráðherrann getur ekki vikist undan ábyrgð sinni gagnvart Alþingi. Hann hefur brugðist skyldu sinni. Hann leyndi upplýsingum, hann brást upplýsingaskyldu sinni þegar hann svaraði ekki fyrirspurn og hann hefur gert það áður. Hann brást einnig skyldu sinni að mínu mati þegar hann lét ekki kanna Lindarmálið betur í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem ríkisendurskoðandi fer fram á að hann þurfi að skoða betur þessi mál, mál sem fyrrverandi formaður bankaráðs telur nú að þurfi opinbera sakarrannsókn. Ég velti því fyrir mér hvort hér sé um yfirhylmingu að ræða og ef svo er, þá er það mjög alvarlegt. En því miður, það er satt og rétt sem komið hefur fram í umræðunni og ég sagði í máli mínu áðan. Það er orðinn alger trúnaðarbrestur milli Alþingis og hæstv. ráðherra. Þess vegna er álitamál hvort þessum ráðherra er sætt á ráðherrastóli eftir þessi mál.