Samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 11:44:11 (6978)

1998-05-27 11:44:11# 122. lþ. 134.6 fundur 402. mál: #A samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum# þál., Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[11:44]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil taka undir málflutning hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það er mjög mikilsvert að Íslendingar vinni almennt að auknu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar allar, það á ekki síst við um Rússland, Kanada og aðildarríki ESB eins og fram kemur í umsögn sjútvn. Þetta er sagt án þess að ég vilji á nokkurn hátt kasta rýrð á þá ágætu þingsályktunartillögu sem hér er sett fram og beinist fyrst og fremst að Færeyjum, Grænlandi og Noregi.

Ég tek heils hugar undir það að við þurfum að efla tengsl okkar við nágrannaþjóðirnar allar og þá ekki síst tengsl þinganna og þingmanna sem fjalla um þessi mál. Ég hef sjálfur, á vettvangi Evrópuráðsins, leitast við að styrkja tengsl Íslendinga við Rússa á sviði sjávarútvegsmála og það er alveg ljóst að þeir fylgjast grannt með þeim málum og hafa mikinn áhuga á samstarfi við Íslendinga á sviði menntamála, tæknimála og sjávarútvegsmála.

Í þessu sambandi má geta þess að í sumar kemur hingað í heimsókn formaður menntmn. dúmunnar, Ívan Melníkov, í boði þingsins. Hann hefur sérstakan áhuga á þessum tveimur málaflokkum, sjávarútvegsmálum og orkumálum. Á vegum Evrópuráðsins, en þar gegnir þessi ágæti maður mikilli trúnaðarstöðu sem formaður vísinda- og tækninefndarinnar, er verið að vinna að skýrslugerð í orkumálum og í sjávarútvegsmálum. Heimsókn hans hingað tengist einmitt þessu aukna samstarfi á sviði sjávarútvegsmála sem við erum sammála um, ég og hv. síðasti ræðumaður, að skipti okkur miklu máli.