Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 12:06:52 (6985)

1998-05-27 12:06:52# 122. lþ. 134.8 fundur 655. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv. 48/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[12:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ein örstutt athugasemd. Ég fagna því að heyra það úr munni hæstv. félmrh. að hann telji að atvinnuleysisbætur eigi ekki að vera lágar og væntanlega duga til framfæris, sem er mjög fjarri lagi. Fyrir fáeinum vikum vakti það athygli að annar hæstv. ráðherra úr þeirri ríkisstjórn sem hæstv. félmrh. situr í hafði uppi orð sem mátti túlka á annan veg, þ.e. að atvinnuleysisbætur mættu ekki vera of háar og það sem slíkt ætti að vera hvatning til vinnu. Þetta eru mjög forneskjuleg viðhorf og þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum.

En hinu vil ég mótmæla að atvinnuleysisbætur hafi hækkað í samræmi við launaþróun. Þar mega menn ekki horfa á meðaltalsprósentureikninginn einan, menn verða að horfa á hvernig lægstu laun hafa hækkað og þau hafa hækkað umtalsvert en atvinnuleysisbætur hafa ekki hækkað í samræmi við það og var því ekki lítið mótmælt á sínum tíma þegar ríkisstjórnin ákvað að taka atvinnuleysisbætur úr tengslum eða rjúfa tengslin við lægstu eða lága launataxta. Það er því ekki rétt sem kemur fram í máli hæstv. félmrh. að sýnt sé að atvinnuleysisbætur hækki í samræmi við launaþróun.