Reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 12:18:07 (6991)

1998-05-27 12:18:07# 122. lþ. 134.11 fundur 251. mál: #A reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins# þál. 12/122, RG
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[12:18]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega ánægð með það að efh.- og viðskn. hafi verið sammála um að mikilvægt sé að setja reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum og fagna því að þessi niðurstaða hefur orðið. Ég vil líka þakka meðflm. mínum fyrir að flytja með mér þessa tillögu, en það voru Svavar Gestsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Svo vill til að fjögur okkar eru núv. þingflokksformenn og við erum greinilega sammála um að um þessa hluti eigi að vera reglur þannig að einstaklingar lendi ekki í einhverju óréttlæti varðandi starfskjör sín.

Í tillögugreininni sagði að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að láta semja reglur um leyfi starfsmanna frá störfum í ríkisþjónustu þegar þeir taka tímabundið við öðrum störfum, svo sem hjá alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að eða kjörnum trúnaðarstörfum. Í reglunum verði m.a. tekið fram hvenær starfsmenn eigi rétt til þess að fá ólaunað leyfi frá störfum, hvernig reikna skuli leyfistímann til starfsaldurs, annarra réttinda og mats á starfshæfni og hver sé réttur starfsmanns til fyrra starfs eftir að leyfi lýkur.

Það er alveg ljóst og flestir þekkja það að þessi tillaga var flutt að gefnu tilefni. Það er óviðunandi að einstaklingur sem hefur unnið á alþjóðavettvangi komi heim og uppgötvi að kominn er köttur í ból bjarnar, að starfið hans bíður ekki eins og hann átti von á, að honum sé skákað til hliðar tímabundið eða varanlega af því að það hentar að annar fái starfið.

En nú hafa menn sameinast um það að um þetta séu settar reglur þannig að í framtíðinni muni enginn velkjast í vafa um rétt sinn þegar hann tekur að sér störf á erlendri grund, væntanlega á vegum ríkisins eða vegna einhvers sem skiptir máli að við tökum þátt í og mun skila sér í betri og hæfari einstaklingi.

En því kem ég hér upp að í grg. með tillögunni þegar hún var flutt segir að lagt sé til að reglur verði settar sem kveða á um réttarstöðu starfsmanna og er eðlilegt að um þær reglur verði haft samráð við samtök ríkisstarfsmanna. Ég veit ekki hvað kom fram í umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja þegar hún var send nefndinni en mér mundi finnast mjög mikilvægt og nefni það hér þannig að það geti fylgt þessari afgreiðslu, að haft sé samráð við samtök ríkisstarfsmanna um hvernig reglurnar verði þegar þær verða settar og þegar ríkisstjórnin lætur framfylgja þáltill.