Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 12:21:44 (6992)

1998-05-27 12:21:44# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[12:21]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Mér er það mikil ánægja að mæla fyrir nál. um tillögu til þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Ég lýsi ánægju minni vegna þess að nefndin hafði afar nauman tíma vegna hinna stóru mála sem við höfum til umfjöllunar. Mér hefði þótt afar sárt að skilja svo við þetta þing að sjálf jafnréttisáætlunin yrði skilin eftir því að mér er mjög annt um að stjórnvöld geri það sem í þeirra valdi stendur og lög kveða á um til þess að framfylgja og auka jafnrétti kynjanna.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Sigríði Lillý Baldursdóttur frá félagsmálaráðuneyti en einnig bárust umsagnir frá fjölmörgum aðilum þannig að ekki verður annað sagt en að mjög margir hafi sýnt málinu áhuga og komið á framfæri fjölmörgum hugmyndum. Það er nokkuð óvenjulegt að í þessu nál. ákváðum við að koma á framfæri flestum þeim ábendingum sem okkur bárust. Að sumu leyti er orðið við þeim og lagðar til breytingar á ályktuninni. Sumar þessara tillagna eru í framkvæmdaáætluninni, kannski öðruvísi orðaðar en aðrar tillögur og hugmyndir sem hér koma fram eru einfaldlega það góðar að rétt er að koma þeim á framfæri þó að þær komist ekki inn í áætlunina að þessu sinni.

Til að mynda benti Seltjarnarnesbær á að kveða þyrfti nánar á um skyldur fjölmiðla í jafnréttismálum. Á þetta er lítillega minnst í sjálfri áætluninni í kaflanum um menntmrn. en það mætti gjarnan skoða miklu betur hvernig hægt væri að bæta hlut fjölmiðla og að gera þeim skylt að gæta jafnréttissjónarmiða eins og þeim ber auðvitað lögum samkvæmt.

Þá benti Seltjarnarnesbær einnig á nauðsyn þess að efla íþróttauppeldi stúlkna og auka fræðslu til æðstu ráðamanna um jafnréttismál. Þessi tillaga um aukna fræðslu á ýmsum sviðum kemur mjög víða við sögu en í kaflanum um félmrn. er kveðið á um fræðslu til hinna ýmsu stofnana ríkisins þannig að ég tel að sú tillaga sé í rauninni hér inni.

Egilsstaðabær vildi að fastar yrði tekið á tilnefningum í ráð og nefndir þannig að öllum væri gert skylt að tilnefna tvo einstaklinga, bæði karl og konu þannig að hægt yrði að velja á milli. Þeir bentu einnig á að starfsmannahald á stofnunum fyrir aldraða þyrfti að kanna út frá skiptingu milli kynja og launa og jafnframt að halda þyrfti jafnréttisnámskeið fyrir kennara og skólastjórnendur. En slíkar tillögur eru hér á borði.

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja vildi að í hvert sinn sem ný framkvæmdaáætlun væri lögð fram fylgdi með úttekt á hinni fyrri. Þetta er svo sannarlega hægt að taka undir og það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að hefði nefndin haft betri tíma til þess að fjalla um framkvæmdaáætlunina þá hefðum við að sjálfsögðu viljað fara rækilega ofan í það hvernig gengið hefur að framkvæma þá áætlun sem var í gildi en er nú runnin út. Ég vil koma þeirri ábendingu til hæstv. ráðherra að næst þegar slík framkvæmdaáætlun verður lögð fram, þegar sú sem hér er til umræðu rennur út, þá væri mjög til bóta að fyrir lægi úttekt á því hvernig framkvæmd hefur gengið.

Þá telur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja orðalag í framkvæmdaáætluninni víða of máttlaust. Það bendir á að tryggja þurfi hlutleysi í starfslýsingum, sjá til þess að sveigjanlegur vinnutími komi ekki niður á launum og tryggja að hlutlægt, mælanlegt og skýrt mat liggi fyrir við launaákvarðanir. Að mati Kennarasambands Íslands þarf að vinna að því að fjölga körlum í kennarastétt, flétta þurfi jafnréttissjónarmið og jafnréttisfræðslu inn í kennaramenntunina og endurskoða námsefni út frá jafnréttissjónarmiðum. UNIFEM á Íslandi taldi að orðalag í framkvæmdaáætluninni væri víða of almennt, að skylda þurfi ofbeldismenn í meðferð, taka rækilega á íþróttauppeldi stúlkna, hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í starfi utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunarinnar og halda jafnréttisnámskeið fyrir fólk sem fer til starfa í þróunarlöndum eða vinnur að slíkum verkefnum. Karlanefnd Jafnréttisráðs taldi að Hagstofan ætti að gera könnun á því hvernig konur og karlar verji tíma sínum en menntamálaráðuneytið ætti að kanna framkvæmd og reynslu annarra þjóða af sérstökum umhyggjunámskeiðum í skólum.

Þá taldi karlanefndin að fylgja þyrfti eftir könnun á heimilisofbeldi og það þyrfti að endurtaka hana innan þriggja til fjögurra ára til að meta árangur aðgerða.

Þá segja þeir einnig eða koma með þá tillögu að haldinn verði sjónvarpsfundur um framkvæmdaáætlunina á miðju tímabilinu þar sem ráðamenn sætu fyrir svörum og mat yrði lagt á árangur. Ég vek athygli hæstv. félmrh. á þessari hugmynd sem ég held að gæti vakið heilmikla athygli á stöðu jafnréttismála.

Þá lagði karlanefndin einnig til að ríkisskattstjóri eða Hagstofan gerði skýrslu um hlutföll milli fjölskyldna þar sem heildartekjur karla eru hærri en kvenna eða öfugt, að haldin yrðu sérstök námskeið fyrir dómara og lögmenn um orsakir, eðli og birtingarmyndir heimilisofbeldis og að lokum taldi karlanefndin að stofna þyrfti stöðu prófessors í kynjafræðum eða gender studies. Þetta er nú ekki gott orð en ekki hefur neitt betra fundist yfir þessa fræðigrein.

Samtökin Kynjaverur voru þeirrar skoðunar að breyta þyrfti hugtakinu ,,fórnarlömb`` í þolendur, að feður utan hjónabands ættu að fá fæðingarorlof, að útbúa þurfi kennsluefni fyrir kennara og skólastjórnendur, gera samanburð á launum kvenna og karla í fiskvinnslu með tilliti til menntunar og að banna ætti vinnuveitendum að spyrja fólk um áætlanir um barneignir eða fæðingarorlof. Að mati Jafnréttisráðs þarf að endurskoða og styrkja 12. gr. jafnréttislaganna, gera athugun á starfsmannahaldi ráðuneyta og ríkisstofnana með 25 starfsmenn eða fleiri, þ.e. kanna ráðningar, launamun o.fl., semja leiðbeinandi reglur um ráðningu starfsmanna ríkisstofnana og um beitingu 9. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þar sem fjallað er um viðbótargreiðslur.

[12:30]

Þá lagði Jafnréttisráð til að samdar yrðu starfslýsingar fyrir opinberar stofnanir, jafnréttisfræðsla yrði skipulögð fyrir yfirmenn stofnana, öll eyðublöð ríkisstofnana yrðu endurskoðuð með tilliti til kynjanna og gerð könnun á vaxandi launamun verkakvenna og verkakarla og bent yrði á tillögur til úrbóta. Stígamót telja að hrinda þurfi í framkvæmd tillögum nefnda dómsmálaráðuneytisins um ofbeldismál, skoða umgengnisrétt ,,ofbeldisfeðra`` við börn sín með tilliti til öryggis barnanna, efna til skipulagðrar fræðslu um kynferðisofbeldi og að öll ráðuneyti þurfi að stuðla að afnámi alls kynferðisofbeldis í samfélaginu. Að mati Skólastjórafélags Íslands þarf að bæta menntun kennaraefna hvað varðar jafnréttismál. Jafnréttisfulltrúi Akureyrar telur vanta tímasetningar í aðgerðaráætlunina, einnig skorti ákvæði um skipanir í ráð og nefndir hjá nokkrum ráðuneytum og að benda mætti nokkrum ráðuneytum á að efna til átaks til að fá konur til að sækja um hefðbundin karlastörf, t.d. á sviði samgönguráðuneytisins. Bandalag háskólamanna telur að endurmeta þurfi hefðbundin kvennastörf hjá ríkinu, launakerfisbreytingar megi ekki verða til þess að auka launamun kynjanna, efla þurfi kerfisbundnar kjararannsóknir og fræðslu til ráðamanna um jafnréttismál, hafa jafnréttissjónarmið í huga við allar túlkanir á lögum og reglum sem snerta réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, lögleiða tilskipanir ESB sem bæta stöðu vinnandi fólks og fjölskyldna, bæta vinnuvernd (sbr. ESB), t.d. hvað varðar aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni, kanna þurfi orsakir atvinnuleysis meðal kvenna, einkum hvort hefðbundin sjónarmið varðandi ráðningu starfsmanna með fagmenntun ráði þar um of og breyta þurfi hefðbundnu starfs- og námsvali pilta og stúlkna.

Félmn. leggur til nokkrar breytingar á framkvæmdaáætluninni og nokkrar þær tillögur taka mið af þessum ábendinum sem ég hef hér rakið. En nefndin tekur undir það sjónarmið Jafnréttisráðs að ráðuneytin verði að vera tilbúin til að fylgja áætluninni eftir og því miðast tillögur okkar við það að trúa því að ráðuneytin séu sátt við tillögurnar og muni fylgja þeim eftir.

Nefndin leggur áherslu á að kannað verði sérstaklega hvaða áhrif atvinnu- og þjóðfélagsbreytingar á undanförnum árum hafi haft á stöðu kvenna á landsbyggðinni og þar með á möguleika þeirra til náms og atvinnu. Niðurstöður verði notaðar til að styrkja stöðu kvenna. Þá leggur nefndin til að kveðið verði á um skipan í ráð og nefndir í öllum ráðuneytum og að þeim verði gert skylt að gera úttekt á stöðu jafnréttismála innan sinna veggja og hjá þeim stofnunum sem undir þau heyra. Einnig verði kveðið skýrar á um fræðslu til ráðamanna og yfirmanna stofnana.

Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali og ætla ég að víkja að einstökum brtt.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á III. kafla framkvæmdaáætlunarinnar. Í a-lið er orðalagsbreyting, leiðrétting, þar sem fjallað er um endurskoðun á kjördæmaskipan og kosningareglum, en þar er lagt til að á eftir orðinu ,,kosningakerfa`` í fyrri málslið komi: þar á meðal.

Við leggjum til að við lið 1. Forsætisráðuneyti bætist nýr liður með viðeigandi númeri ásamt fyrirsögn, svohljóðandi: Staða kvenna á landsbyggðinni.

Þarna er komin sú tillaga sem ég gerði grein fyrir áðan og getið er í nál. um úttekt á stöðu kvenna á landsbyggðinni og því hvaða áhrif atvinnu- og þjóðfélagsbreytingar á undanförnum árum hafi haft á stöðu þeirra.

Við leggjum til að við lið 2.6 þar sem fjallað er um ofbeldi, verði gerð sú breyting að í stað orðsins ,,fórnarlömb`` í 2. málsl. komi: þolendur.

Við lið 4. Fjármálaráðuneyti eru lagðar til nokkrar breytingar, fimm talsins, og eru þessar tillögur komnar frá ráðuneytinu sjálfu. Ég vek athygli á því að í þessum breytingum er einmitt verið að bregðast við ýmsum þeim tillögum sem Jafnréttisráð lagði til á sínum tíma. Í tillögunum er m.a. fjallað um feðraorlof, úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna, reglur um starfslýsingar, fræðslu til yfirmanna stofnana ráðuneytisins og að hlutur kvenna í starfi ráðuneytisins verði aukinn. Og síðan er reyndar einn liður til viðbótar, hæstv. forseti, endurskoðun á eyðublöðum.

Síðan leggur félmn. til að við lið 1, 6, 10, 11 og 13 bætist nýr liður með viðeigandi númeri ásamt fyrirsögn svohljóðandi: Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.

Og tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

Hér er verið að leggja til að þessi liður verði hjá öllum ráðuneytunum. Hann var hjá einstökum ráðuneytum en við leggjum til að kveðið verði á um þetta, sem reyndar er að finna í 12. gr. jafnréttislaganna, að öll ráðuneytin setji sér það markmið að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum.

Síðan leggjum við einnig til að við lið 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11 og 13 bætist nýr liður með viðeigandi númeri ásamt fyrirsögn, svohljóðandi: Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.

Og tillögugreinin orðist svo:

Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu til yfirmanna og annarra starfsmanna.

Þarna er einnig verið að samræma því að mjög góða tillögu var að finna í kaflanum um umhverfisráðuneytið og við leggjum til að öll ráðuneytin geri slíka úttekt innan dyra hjá sér og í þeim stofnunum sem undir þau heyra og að sjálfsögðu nái sú úttekt til beggja kynja. Því að það þarf auðvitað margt að kanna í sambandi við stöðu karla, vinnutíma þeirra og hvers þeir óska í þeim efnum.

Að lokum leggjum við til brtt. við 13. lið, Utanríkisráðuneyti. Þar bætist við nýr liður með viðeigandi númeri ásamt fyrirsögn, svohljóðandi: Jafnréttisnámskeið.

Tillögugreinin orðist svo:

Ráðuneytið mun standa fyrir jafnréttisnámskeiðum fyrir starfsmenn sem fara til starfa í þróunarlöndum eða vinna að slíkum verkefnum.

Hér er fyrst og fremst átt við það, hæstv. forseti, að starfsmönnum sé gerð rækileg grein fyrir stöðu jafnréttismála karla og kvenna í þeim löndum sem þeir eru að fara til, því að aðstæður eru oft og tíðum mjög ólíkar því sem við þekkjum og auðvitað grundvallaratriði að átta sig á því hvað sérstakt er fyrir konur og hvað sérstakt er fyrir karla, en það er einmitt þekkt úr þróunarstarfi undanfarinna áratuga að Vesturlandabúar voru að flytja sitt gildismat yfir á þessi þjóðfélög og tóku oft og tíðum ekki tillit til stöðu kvenna sem höfðu yfirleitt séð um alla framleiðslu í þessum ríkjum, sérstaklega í Afríku, og því varð þróunaraðstoðin til þess að raska stöðu þeirra verulega.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim brtt. sem nefndin leggur til. Þær hefðu hugsanlega orðið fleiri ef meiri tími hefði gefist til að vinna í málinu en ég ítreka að mjög margar góðar tillögur er að finna í upphaflegri tillögu og ég vona svo sannarlega að því verði fylgt eftir, því að síðasta skýrsla sem við fengum í hendur um þessi mál sýndi að nokkur ráðuneytanna höfðu lítið gert og við svo búið má ekki standa. Það þarf að fylgja því betur eftir hér eftir en hingað til að ráðuneytin standi við lög, eins og þeim að sjálfsögðu ber, og vinni að því að bæta þjóðfélagið og rétta hlut kvenna jafnframt því að koma til móts við þær breytingar sem eru að verða á stöðu fjölskyldnanna og óskum karlmanna um styttri vinnutíma, fæðingarorlof og fleira sem nú er á döfinni.