Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 14:17:03 (6996)

1998-05-27 14:17:03# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[14:17]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er komin til síðari umræðu framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Eins og fram kom í máli mínu við fyrri umræðu málsins tel ég að hér séu mörg fögur og góð markmið enda er áætlunin unnin af ýmsum embættismönnum í jafnréttismálum sem hafa góð þekkingu á þessum málum. Ég tel að þessi áætlun endurspegli vel að embættismenn, hvort heldur í félmrn. eða Jafnréttisráði, þekkja þessi mál orðið nokkuð vel.

Ef þessi tillaga kæmist í framkvæmd þá tel ég að töluverð breyting yrði til batnaðar í samfélaginu, breyting sem yrði til þess að á öllu væri mun meira jafnréttisyfirbragð. Ég tel að það yrði öllum til heilla, konum, körlum og börnum. Því miður sýnir reynsla undanfarinna ára og undanfarinna jafnréttisáætlana að það er ekki nóg að setja fram áætlanir. Þeim þarf að fylgja pólitískur vilji. Því miður hefur þessi vilji ekki verið til staðar. Þá vil ég ekki aðeins tiltaka þessa ríkisstjórn heldur benda á að það eru yfir 20 ár, 22 ár, síðan fyrstu jafnréttislögin voru sett. Ég held þó að langflestir séu sammála um að allt of hægt miði.

Við kvennalistakonur höfum flutt fjölmörg mál á þinginu sem nú starfar og undanfarin ár þar sem við mælum með svokallaðri samþættingaraðferð. Sú stefna hefur verið samþykkt hjá Norðurlandaráði og hjá Evrópusambandinu. Ég fagna því að í þessari áætlun er gefið til kynna að styðjast eigi að einhverju leyti við þá aðferðafræði, samanber bækling sem Jafnréttisráð hefur gefið út um þessa aðferð.

Samþætting er aðferðin kölluð á íslensku en á ensku heitir hún mainstreaming. Ég vil gera greinarmun á þessari íslensku þýðingu og erlenda heitinu. Erlenda heitið nær að mínu mati mun betur yfir það markmið að setja eigi jafnréttismálefni inn í meginstraum stjórnmálanna. Það er ekki bara að þetta eigi að samþættast inn í öll svið heldur eigi þetta að vera meginmál. Ég tel að til þess að það geti orðið þá þurfi sterkan pólitískan vilja. Ég fagna því að það virðist vera ætlun ríkisstjórnarinnar að taka mið af alþjóðasamþykktum hennar sjálfrar, í Norðurlandaráði og þeim skyldum sem við höfum í tengslum við Evrópska efnahagssvæðið.

En til þess að þessi stefna komist í framkvæmd þá þarf ýmislegt að vera til staðar, m.a. þarf góð þekking ráðamanna að vera til staðar og við kvennalistakonur höfum lagt mikla áherslu á að til þess þurfi að fræða æðstu ráðamenn. Einnig þarf viðeigandi tæki eins og góða jafnréttislöggjöf. Ég tel alveg ljóst að sú löggjöf sem við búum við nú sé alls ekki nógu góð, enda hefur ríkisstjórnin boðað að til standi að endurskoða hana. Meginveikleikinn í okkar löggjöf --- þeir eru reyndar mjög margir --- er ekki síst eftirlitshlutverkið og sú veika staða sem Jafnréttisráð og kærunefnd jafnréttismála hefur. Einnig er mjög lítið fjármagn veitt í þennan málaflokk svo ég beri það t.d. saman við Samkeppnisstofnun. Það er yfirlýst pólitískt markmið ríkisstjórnarinnar að koma á virkri samkeppni og þess vegna fær sú stofnun bæði töluvert vald og töluverða fjármuni til þess að fylgja sínum störfum eftir.

Það þarf fjármagn. Það þarf breytta löggjöf. Það þarf fræðslu fyrir ráðamenn og það þarf pólitískan vilja. Hann hefur skort hingað til. Ég vil, varðandi fjármagnið, benda á að samkvæmt þessari tillögu er gert ráð fyrir að það kosti 7--10 milljónir að framkvæma fjölmargar rannsóknir sem á að gera frá árinu 1998 til 2001. Allar þessar framkvæmdir eiga að kosta 7--10 milljónir á tímabilinu, á meðan Samkeppnisstofnun fær mun hærri fjárhæðir árlega, tugi milljóna til þess að fylgja eftir sínu starfi.

Í þessari áætlun er komið inn á mörg þau mál sem við kvennalistakonur höfum lagt áherslu á á sviði jafnréttismála undanfarin ár og jafnframt í ágætu nál. félmn. sem ég mun koma að hér á eftir. Þar vil ég sérstaklega nefna atriði eins og fræðslu til æðstu ráðamanna sem hérna liggur fyrir í þáltill. Mjög margir af þeim sem veittu umsagnir til félmn. um þessa tillögu mæla með henni. Það tel ég mjög mikilvægt atriði. Þá höfum við lagt áherslu á að styrkja þurfi 12. gr. jafnréttislaganna sem kveður á um jafnan fjölda kvenna og karla í ráðum og nefndum. Ég tel reyndar að greinin sé nægilegt skýrt orðuð núna og að þessu væri komið í framkvæmd ef til staðar væri pólitískur vilji. Reyndin sýnir að ráðherrar eða yfirmenn stofnana sem biðja um tilnefningar minna ekki á þessa grein eins og lögbundið er.

Þá vil ég nefna frv. okkar um breytingu á jafnréttislögum um kynferðislega áreitni, um bann við kynferðislegri áreitni, sem enn einu sinni hafa borist miklar og góðar umsagnir um. Það virðist þó ekki eiga að taka hér inn í þingið og breyta, eins og langflestir umsagnaraðilar mæla með. Mig langar í því sambandi að segja þingheimi frá því að þó nokkrir aðilar, samtök og stofnanir, hafa haft samband við mig síðan ég flutti þetta mál fyrst og eru nú að koma á markvissum aðgerðum til þess að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni innan sinna stofnana. Þar má nefna Kaupmannasamtökin. Þau vinna markvisst að aðgerðum, m.a. með því að búa til bæklinga og hengja upp veggspjöld á vinnustöðum. Það er ýmislegt að gerast í þessu máli nú þegar. Ég harma að félmn. skuli ekki hafa tekið þetta mál til afgreiðslu, þ.e. þessa breytingu á jafnréttislögunum sem liggur fyrir í þeirri nefnd.

Þá vil ég nefna það mál okkar kvennalistakvenna sem er breyting á þingskapalögum. 1. flm. er hv. þm. Kristín Halldórsdóttir. Það er beint samþættingarfrumvarp og gerir ráð fyrir að öll stjórnarfrumvörp verði greind með tilliti til þess hvernig þau koma við stöðu kynjanna. Þá, alveg eins og við höfum kostnaðaráætlun núna, kemur fram að hvaða leyti frumvarpið eða lögin koma mismunandi við kynin, t.d. ef um væri að ræða atvinnumál, að það væri um það bil ljóst hvort þarna væru störf við hæfi beggja kynja o.s.frv.

Þetta frv. teljum við mjög mikilvægt. Það hefur ekki hlotið mikla umræðu í þingnefnd þar sem um er að ræða breytingu á þingskapalögum. Það hefur verið tekið fyrir í allshn. en væntanlega fer það inn í þann farveg sem hér er til staðar fyrir breytingar á þingskapalögum, þ.e. inn í þá nefnd sem er að endurskoða þau. Ég tel sérstaklega mikilvægt að fjárlagafrv. verði greint með tilliti til kynja. Það er reyndar mjög athyglisvert, svo ég komi inn á það, með kostnaðaráætlanir ráðuneytanna hvað þær eru oft ófullkomnar. Ég vil t.d. í því sambandi nefna búvörusamninginn sem hér var til umræðu í gær. Þar er talað um að kostnaðaraukinn verði upp á örfáar milljónir næstu árin. Þar er hins vegar hvergi tekið fram að búvörusamningurinn mun kosta okkur um 21 milljarð, um það bil 25 kr. á mjólkurlítra, á 102 milljónir lítra á ári. Þetta kemur ekkert fram í kostnaðaráætlun frumvarpsins. Mjög víða kemur það alls ekki fram, þrátt fyrir þessar umsagnir fjmrn., hvað hlutirnir kosta og við getum velt því fyrir okkur hvers vegna svo er. Ég vil gjarnan sjá að öll frumvörp í þinginu verði greind með tilliti til kynjasjónarmiða þannig að fólk átti sig á því að við getum ekki endalaust rekið atvinnustefnu þar sem flest ný atvinnutækifæri eru slík að þau virðast frekar höfða til karla en kvenna, þá á ég t.d. við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

[14:30]

Þá vil ég nefna það frv. sem er ekki enn búið að mæla fyrir, þ.e. að taka upp kynhlutlaust orð fyrir ,,ráðherra``. Ég tel mjög tímabært að konur þurfi ekki að sitja uppi með það að vera kallaðar herrar. Ég er ekkert viss um það, herra forseti, að þú kynnir vel við það að þú værir stöðugt kallaður frú. Ég er hrædd um að það þætti dálítið sérstakt. (Gripið fram í: Ekki þúa forsetann.) Herra forseti, að þér væruð kallaðir frú --- eða kölluð frú. Þannig að þetta er að mínu mati háalvarlegt mál. (Gripið fram í: ... yðar hágöfgi.)

Það er mikill munur á þessu og því að konur séu kallaðar menn, eins og mér finnst margir ruglast í og segja: Hafið þið eitthvað á móti því, konur, að vera menn? Nei, að sjálfsögðu viljum við vera menn og erum menn. Við getum verið forsetar og við getum verið kennarar og sætt okkur við alls konar karlkyns starfsheiti. Við getum hins vegar ekki verið herrar, það er bara svo einfalt mál. Þetta er löngu tímabært og það er mjög athyglisvert að síðan þetta mál kom fram hefur þetta verið rætt við fjölmarga aðila og fyrstu viðbrögð hafa verið: Jesús minn, þetta er nú eitthvað sem er bundið í stjórnarskránni og er óskaplega erfitt að fara að breyta. En um leið og er farið að rökræða málin finnst flestum sem við höfum rætt við þetta æ sjálfsagðara þó að ég ætli ekkert að fullyrða um vilja þingsins í þessu máli.

Ég held að ekkert af þeim málum sem við kvennalistakonur höfum verið að brydda upp á, og á mörgum þeirra er tekið í þessari jafnréttisáætlun, muni komast í framkvæmd nema að fyrir sé pólitískur vilji. Ég vil í því sambandi minna á þá aðferð sem Svíar notuðu 1994 þegar Mona Sahlin var jafnréttisráðherra. Hún var jafnréttisráðherra og varaformaður flokks síns og pólitísk framtíð hennar stóð og féll með því að hún stæði sig vel í embætti jafnréttisráðherra. Hún kom þessari samþættingarhugmyndafræði í framkvæmd. Hún kom á námskeiðum. Ingvar Carlson forsætisráðherra var fyrsti ráðherrann sem fór á námskeiðið. Hún hafði mjög öfluga stýringu inn í öll ráðuneytin í gegnum aðstoðarmenn ráðherranna og það bar árangur. (Gripið fram í: Og svo fór hún í sumarfrí.) Vissulega fór hún síðan í sumarfrí og við getum velt því fyrir okkur hvers vegna það er. Því að sterkar konur geta líka verið mjög hættulegar pólitískt.

Ég vil næst, herra forseti, koma nánar að nál. félmn. Við kvennalistakonur eigum ekki fulltrúa í félmn. og þess vegna fannst mér mjög upplýsandi að lesa nál. Ég tel að þar sé farin mjög góð leið, sérstaklega fyrir þá sem ekki hafa aðgang að gögnunum, að talin eru upp í nál. þau meginatriði sem hinir ýmsu aðilar kom inn á í umsögn sinni. Mér finnst óskaplega gleðilegt að sjá að þarna er komið inn á mörg af mínum hjartans málum, t.d. fræðslumál, eins og ég nefndi áðan. Mjög margir taka undir þörfina á því að koma á jafnréttisfræðslu fyrir æðstu ráðamenn og fyrir ýmsa fleiri aðila í ríkiskerfinu.

Þá finnst mér einnig mjög áhugavert hve margir taka undir að þörf sé á fræðslu til kennara í þessum málum, þá er bæði talað um grunn- og endurmenntun kennara. Ég vil taka það fram, herra forseti, að ég hef fylgst vel með þeim málum undanfarin tíu ár. Það er bundið í jafnréttislögum að jafnréttisfræðsla eigi að vera í skólum og því þarf að kenna kennurum um þessi mál. Því miður er ástandið þannig í kennaramenntunarstofnunum að það virðist fara eftir áhuga kennara í viðkomandi stofnunum hvort þessu máli er yfir höfuð sinnt. Við höfum tekið þátt í samnorrænu verkefni, Nordlilja, um kennaramenntun og jafnréttismál. Það var blómlegt starf í nokkur ár á meðan það var en svo segir fólk mér núna að það sé meira og minna dottið niður. Þess vegna er mjög þarft að taka á jafnréttismálum innan kennaramenntunarinnar. Ég vil í þessu sambandi einnig nefna tillögu sem verður vonandi samþykkt næstu daga um þörf fyrir að taka mið af mismunandi þörfum stúlkna og drengja í skólum sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir er 1. flm. að. Menntmn. leggur til að tillagan verði samþykkt og þar er m.a. brtt. þar sem sérstök áhersla er lögð á kennaramenntunina. Ég tel að þetta sé algjört grundvallaratriði þó ekki sé nema til þess að ungt fólk viti um rétt sinn. Sem betur fer kemur fólk út í skólana og út í atvinnulífið fullt bjartsýni. Það er ekki fyrr en það situr í súpunni og áttar sig að það er brotið á þeim að áhuginn vaknar á þessum málum.

Ég vil einnig sérstaklega fagna tillögu sem kemur fram frá karlanefndinni og kemur fram í nál. félmn. um að komið verði á stöðu prófessors í kynjafræðum við Háskóla Íslands. Ég tel að það sé löngu tímabært. Það hefur verið unnið mjög markvisst að því að styrkja stöðu kvenna og kynjafræða innan háskólans undanfarin ár, fyrst með stofnun Rannsóknastofu í kvennafræðum árið 1990 og síðan með því að taka upp kennslu í kvenna- og kynjafræðum árið 1995. Ég tel því að það sé mjög tímabært að stofna stöðu í þessum fræðum. Eins og er þá er engin sérstök staða heldur skiptast kennarar í mismunandi greinum sem kenna aðrar fræðigreinar á að sinna ábyrgð á þessari kennslugrein.

Ýmislegt fleira, t.d. ýmis þau atriði sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom áðan inn á varðandi launastefnu og fram kemur í athugasemdum frá BSRB vildi ég gjarnan taka undir.

Ég tel að þetta nál. sé upplýsandi og gagnlegt fyrir ríkisstjórnina til að átta sig á hvar skórinn kreppir helst að mati hinna ýmsu stofnana í þjóðfélaginu. Ég tel að það sé gott leiðbeinandi plagg með þessari ályktun sem er mjög ítarleg.

Varðandi brtt. nefndarinnar finnast mér þær flestar til bóta en ég sakna þess að sjá ekki ráðherrann hér. Ég vildi gjarnan spyrja hann um tvö atriði. Er ráðherrann ekki í húsinu?

(Forseti (RA): Forseti mun láta kanna hvort ráðherrann er í húsinu.)

Ef ráðherrann er ekki í húsinu geri ég nú ráð fyrir að formaður félmn. eða aðrir aðilar í félmn. geti svarað en það er sem sagt fyrst og fremst brtt. í a-lið, þ.e. við lið 1.1. í áætluninni, sem ég velti fyrir mér, en það varðar endurskoðun á kjördæmaskipun og kosningareglum. Þar stendur:

,,Nefnd forsætisráðherra um endurskoðun kjördæmaskipunar og kosningalaga mun í skýrslu sinni leggja fram sérstaka úttekt á áhrifum mismunandi kosningakerfa.``

Lagt er til að inn komi ,,þar á meðal á möguleika kvenna og karla til að hljóta kosningu til Alþingis og sveitarstjórna``. Mig langar að velta þeirri spurningu upp hvers vegna þessi breyting er gerð. Hver er ástæðan fyrir þessari breytingu? Mér finnst þetta gera málið óskýrara og vil gjarnan fá skýringu á þessari brtt.

Þá vil ég einnig spyrja út í brtt. --- og ég sé að hæstv. ráðherra er kominn í salinn --- sem gerð er við lið 4.4. en það er fræðsla til yfirmanna stofnana ráðuneytisins en áður bar hún almennara heiti, fræðsla til yfirmanna opinberra stofnana. Mér sýnist því eins og þarna sé verið að þrengja töluvert verksvið eða hverjir eigi að fá þessa fræðslu. (Gripið fram í.) Þetta á bara við fjmrn. en titillinn var það opinn fyrst þannig að ég vil spyrja hvers vegna þessi breyting er gerð. Er það til að ítreka að þetta eigi bara við fjmrn.? Þá vil ég spyrja: Ef svo er, er það þá ekki vilji hæstv. ráðherra jafnréttismála, félmrh., að fræðslan nái til fleiri ráðuneyta?

Ég tel að flestar þessar brtt. séu að öðru leyti til bóta þó að það fé sem ætlað er til að koma áætluninni í framkvæmd sé æðitakmarkað og því hafi ég verulegar efasemdir um að þær komist í framkvæmd. Þess vegna tek ég undir þá skoðun BSRB, sem kemur fram í nál., að það hefði verið rétt að þegar ný áætlun væri lögð fram, að þá fylgdi með mat á því hvernig fyrri áætlun hefði gengið. Það er nefnilega það, hæstv. ráðherra, að því miður hefur þetta verið dálítill skrípaleikur. Fögur markmið eru lögð fram, jafnréttisáætlun til fjögurra ára. Síðan gerist lítið og eftir fjögur ár kemur önnur áætlun, að hluta til með því sama í en að hluta til með nýrra tungutaki og áherslum í takt við það sem nýjast er að gerast.

Herra forseti. Ég er sannfærð um það að hægt væri að gera mun betur í jafnréttismálum en nú er gert ef pólitískur vilji væri fyrir hendi. Aðferðafræði samþættingarinnar sem hér hefur aðeins verið rædd lofar góðu en til að koma henni í framkvæmd þarf að vera fyrir hendi vilji. Það þarf að vera öflug stofnun, öflug jafnréttisstofnun þannig að hægt sé að taka og fylgja þessum málum eftir. Það er umhugsunarvert hvort ekki ætti að setja á laggirnar jafnréttisráðuneyti til að þessi mál fái þann forgang sem ég tel þau eiga skilið. Ég tel að það sé raunverulegur vilji þjóðarinnar að tekið verði alvarlega á þessum málum. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé tímabært um leið og snúið er frá þessari skúffureglu að þessi mál séu í útjaðrinum, sem mér sýnist að ætlunin sé að gera með jafnréttisáætluninni, að annaðhvort verði myndað jafnréttisráðuneyti eða að þessum málum verði komið fyrir í forsrn. með öflugum tengslum inn í öll hin ráðuneytin, t.d. í gegnum aðstoðarmenn ráðherra þannig að því verði vel fylgt eftir sem á að gera á hverjum stað.

Ég vil að lokum, herra forseti, fagna því sérstaklega sem kemur fram í nál. félmn. að þar er lagt til að gera eigi könnun á málefnum kvenna á landsbyggðinni. Það er alveg ljóst að ef ekki verður tekið verulega á atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni mun byggðaþróunin bara vera í eina átt. Atvinnuuppbyggingin úti á landsbyggðinni hefur verið allt of hæg og sjávarútvegsstörfin sem konur hafa hingað til haft eru óðum að leggjast af. Því miður, fyrir utan kennslu og störf í þjónustu, bönkum og dagvistarstofnunum, er allt of lítið um störf fyrir konur. Við þessar aðstæður flytja þær þangað sem atvinnutækifærin eru betri. Þá á ég t.d. við Akureyri og höfuðborgarsvæðið, eða stærri staði yfirleitt sem bjóða upp á fjölbreytt störf. Ef ekki verður unnið markvisst í því að breyta þessu, efla atvinnusköpun fyrir konur á landsbyggðinni mun byggðaþróunin verða í sömu átt og hún hefur verið. Þess vegna fagna ég því að gerð verði könnun á atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni.

[14:45]

Ég vil nefna sem dæmi að fyrir skömmu, herra forseti, lauk hér í Reykjavík tveggja ára námskeiði, svokölluðu brautargengisnámskeiði sem atvinnumálanefnd Reykjavíkurborgar stóð fyrir, reyndar með stuðningi félmrn. og Iðntæknistofnunar. Þar var um að ræða tveggja ára námskeið þar sem konur voru fræddar um það hvernig koma eigi viðskiptahugmynd í framkvæmd. Nýlega var mikil ráðstefna þar sem konurnar sýndu afrakstur sinna starfa og það er ljóst að fjölmörg ný fyrirtæki eru að spretta upp í kjölfar þessa námskeiðs. Ég tel að þetta framtak hafi gengið mjög vel og að mikilvægt sé að slíkt námskeið verði haldið fyrir konur á landsbyggðinni.

Það er mjög langur vegur, eins og flestir sem koma að nýsköpun vita, frá því að fá góða hugmynd þar til henni er komið í framkvæmd. Það kostar oft mjög mikið fé, mikinn stuðning og síðast en ekki síst þá þarf mat á því hvort að reksturinn muni á endanum ganga upp. Það sem mér fannst ekki síst athyglisvert við að kynnast hugmyndum þessara kvenna var að þær eru nú orðnar nettengdar og styðja hver aðra. Þær vísa hver á aðra, ein er með snyrtistofu, önnur býr til búninga og sú þriðja er með eitthvað þessu tengt. Konur verða þannig að læra að treysta hver á aðra. Við þekkjum mikið af svokölluð karltryggingarsamtökum og ég held að þetta net sem þarna er að myndast verði mjög mikilvægt fyrir þá vaxtarbrodda sem eru að koma þarna fram í atvinnulífinu. Ég vona svo sannarlega að konur úti á landsbyggðinni fái tækifæri til þess að gera svipaða hluti og tengjast svona neti.

Ég vil, herra forseti, einnig ítreka að það gengur ekki að veita styrki, eins og kannski hefur um of verið gert á undanförnum árum, til að gera konum kleift jú að koma sér upp aðstöðu til að búa til minjagripi eða annað slíkt í einhverjum bílskúr, eins og oft er. Það gengur ekki nema konurnar geti fengið mannsæmandi laun. Oft er markið sett allt of lágt. Markmiðið er jú kannski að hlutirnir seljist en konur eiga ekki að þurfa að stunda neina atvinnubótavinnu. Þær eiga auðvitað að fá vinnu og koma á atvinnu sem gefur af sér. Þess vegna verðum við að gera þá kröfu, sjálfsvirðingar okkar vegna, að þarna spretti upp lífvænleg fyrirtæki þar sem konur geti fengið mannsæmandi laun. Ég held að í þessu sambandi sé mjög mikilvægt að endurskoða þá styrki sem hægt er að fá víða í þessu þjóðfélagi til nýsköpunar.

Oft er vandi kvenna sá að það er ekki hægt að fá nógu lága styrki. Við getum velt því fyrir okkur hvað margar konur mundu sækja um styrki ef lágmarkslánsfjárhæð væri tíu milljónir, og af því þyrfti viðkomandi að leggja fram helming. Það eru ekkert margar konur sem eiga fimm milljónir til þess að setja inn í fyrirtæki. Það er því augljóst að það þarf að stokka upp þessa hugsun í sambandi við það hvernig styðja á við atvinnu kvenna, hvort sem er á landsbyggðinni, hér á höfuðborgarsvæðinu eða í þéttbýli yfirleitt.

Konur sækja nú stíft bæði í Háskóla Íslands og inn á háskólastigið almennt og eru um 60% þeirra sem útskrifast þar. Konur eru 60% þeirra sem útskrifast með stúdentspróf og þær eru yfir 60% af þeim sem útskrifast frá sérskólum á háskólastigi. Það er alveg ljóst að þær eru að koma inn sem mjög sterkt afl á vinnumarkaðinn. Þjóðfélagið verður að taka mið af því. Það gengur ekki að setja allt fjármagnið, tuttugu og eitthvað milljarða í styrki til landbúnaðar, annað eins í styrki til sjávarútvegs, sem reyndar er nú á undanhaldi. Það þarf að skoða þetta styrkjakerfi allt saman með tilliti til þess að vinnumarkaðurinn er að breytast og verður að breytast ef við ætlum ekki að halda áfram að lifa á einni auðlind og vera hráefnisframleiðendur.

Ég vil að lokum, herra forseti, segja nokkur orð, í tilefni af orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar hér áðan, um höfðatöluna. Það er vissulega rétt hjá honum að auðvitað er ekki endilega tryggt að kvennabaráttan og jafnréttisbaráttan fái brautargengi þó margar konur komist að. Það eru auðvitað til konur sem ekki hafa áhuga á jafnréttismálum, eru ekki femínistar, eins og við mundum segja. Á sama hátt eru til karlmenn sem hafa áhuga á jafnréttismálum og vilja gjarnan láta kalla sig femínista. Ég held að það sé alveg rétt og mikilvægt að við gerum greinarmun á þessu tvennu. Þess vegna tel ég mikilvægast eins og við kvennalistakonur höfum ávallt lagt áherslu á að það séu femínisk sjónarmið sem heyrist. Við höfum hingað til treyst okkur í Kvennalistanum best fyrir að þau sjónarmið heyrist.

Jafnréttismálin eru nú ofarlega á baugi í öðrum stjórnmálaflokkum, eru komin misofarlega á blað þó. Ég er alveg sannfærð um að nú má finna samherja í jafnréttismálum í mörgum flokkum. Ég hef sannreynt það í því samstarfi sem ég hef átt við stjórnarandstöðuna hér á þingi að það er vilji fyrir því að taka á þessum málum. Þess vegna vil ég taka undir það að ég tel að það sé krafa ungs fólks í dag, og ekki bara ungs fólks heldur okkar allra, allra femínista í þessu landi, að konur og karlar taki sig saman og breyti þjóðfélaginu þannig að jafnréttismálin komist inn í meginstraum stjórnmálanna en verði ekki í einhverri lítilli skúffu í félmrn.