Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 14:54:35 (6998)

1998-05-27 14:54:35# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, Frsm. KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[14:54]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru fjögur atriði í ræðu hv. þm. sem ég ætlaði að koma inn á. Það er í fyrsta lagi út af því sem þingmaðurinn sagði varðandi fræðslu til ráðamanna. Hún nefndi fræðslu til æðstu ráðamanna. Ég vil ítreka að í brtt. nefndarinnar er það reyndar tengt saman könnun á stöðu jafnréttismála innan stofnana og áætlanir um hvernig skuli rétta hlut kynjanna, fræðsla til yfirmanna.

Ég vildi koma því til þingmannsins að í umsögnum um tillögu um fræðslu til æðstu ráðamanna þá kom m.a. upp spurningin um það hver rétturinn er, t.d. varðandi forseta Íslands. Er hægt að skikka forseta Íslands á jafnréttisnámskeið? Er það eðlilegt? Þannig að það er spurning hvort það þyrfti ekki að skilgreina þar betur hvað átt er við með ,,æðstu ráðamenn``. Ég lít svo á að þessi áætlun breyti því ekki að hægt væri að samþykkja slíka tillögu sem áskorun Alþingis til ríkisvaldsins. Hins vegar skal bent á að það er spurning hvort ekki þyrfti að athuga þessa skilgreiningu og hverja er hægt að skikka til fræðslu.

Varðandi það sem þingmaðurinn nefndi um tillöguna um kynferðislega áreitni, þá ræddi félmn. það mál nokkuð ítarlega. Hún ætlaði sér að fara mun dýpra ofan í þau mál, kalla til aðila og kynna sér það hvernig þessum málum væri háttað en vegna hinna stóru mála sem við fengum þá gafst ekki tími til þess. Ég vona að það verði síðar.

Og varðandi þá tvo liði í brtt. sem þingmaðurinn spurði um og eru að sjálfsögðu á ábyrgð félmn. Ef ég má aðeins syndga upp á náðina, forseti, þá er í fyrsta liðnum, einfaldlega verið að skýra það að nefndin, sem er að fjalla um kjördæmaskipan og þingmaðurinn á sæti í, ætlar ekki eingöngu að leggja fram sérstaka úttekt á áhrifum á möguleika kvenna og karla heldur væntanlega um ýmis önnur möguleg áhrif.

Varðandi lið 4.4. þá á hann eingöngu við fjmrn. en það er félmrn. sem fer með jafnréttismál hér í landinu og á þannig að hafa yfirumsjón með fræðslunni. Í brtt. okkar erum við einmitt að reyna að koma fræðslunni inn alls staðar.