Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:03:45 (7002)

1998-05-27 15:03:45# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:03]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þessi andsvör. Það er rétt hjá honum að það mætti túlka orð mín þannig að ég væri á móti því að konur ynnu í álverinu. Það er bara ekki málið. Málið er að það eru mjög fáar konur sem sækjast eftir að vinna þar. Ég var áðan að tala um konur sem hafa menntað sig til hinna ýmsu starfa. Þetta eru kannski tiltölulega einhæf störf sem þarna eru. Þau eru mjög dýr þessi atvinnutækifæri sem ekki höfða til kvenna. Alveg eins mætti spyrja: Hvers vegna sækja karlmenn ekki inn í leikskólana? Við erum ábyggilega alveg sammála um það að við viljum að konur og karlar sinni sem flestum störfum. Hvers vegna eru svona fáir karlar í leikskólastarfi? Okkur vantar karla þangað inn. Hvers vegna eru svona fáir karlar hjúkrunarfræðingar? Þetta er ekki spurningin um að ég vilji ekki að konur séu hér eða þar. Konur sækja auðvitað um þau störf sem þær hafa áhuga á og þær virðast ekki sækja mikið í þessi störf. Það sama er um togara- eða skipsplássin. Þau gefa vel af sér og konur reyna að sækja um þessi störf en það er heldur ekkert auðvelt að fá þau.

Varðandi spurninguna um fulltrúa Kvennalistans í félmn. þá er alveg ljóst að Kvennalistinn, þingflokkur Kvennalistans, á ekki fulltrúa þar núna. Við fáum engar upplýsingar frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, sem er utan flokka, inn í okkar þingflokk um hvað þar gerist. Hún starfar ekki með þingflokknum þannig að við fáum ekki upplýsingar um það sem gerist á fundum félmn. í gegnum hv. þm. Kristján Pálsson sem fulltrúa eða hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Það er óháð því hversu vel hún eða aðrir þingmenn starfa í félmn., sem ég hef engar efasemdir um.