Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:05:58 (7003)

1998-05-27 15:05:58# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra þessa yfirlýsingu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur. Hún hefur ekki efasemdir um heilindi formannsins í nefndinni og ég held að það sé einmitt rétt. Þar er unnið af fullum heilindum til þess að ná fram fullu jafnrétti milli karla og kvenna af hálfu formannsins þó hún sé ekki í þingflokki Kvennalistans sem stendur.

Það er einmitt þetta atriði, herra forseti, sem snýr að því ,,að höfða til``. Þetta starf höfðar ekki til kvenna, það höfðar ekki til karla. Ég hélt að það væri einmitt markmiðið með öllum þessum aðgerðum, að reyna að jafna þetta svo störfin höfði til allra. Uppeldisstörf, sem hingað til hafa helst höfðað til kvenna, leiða síðan til þess að þær fara í störf sem eru þjónustustörf eða uppeldisstörf eins og í leikskólum. Það höfðar mjög til kvenna að starfa á hjúkrunarstofnunum og vera í umönnunarstörfum alls konar. Þetta er kynbundið, þetta er uppeldislegt atriði og því þarf að breyta, þannig að konur byggi upp áhugasvið sitt á flestum sviðum mannlífsins. (ÖS: Í þingflokki Sjálfstfl.?) Eins og t.d. í þingflokki Sjálfstfl., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og í öðrum flokkum.

Ég held að flestir flokkar hafi tekið upp þau markmið að reyna að auka áhuga kvenna á pólitík. Konur hafa því miður ekki sýnt mikinn áhuga á pólitík. Það hefur ekki beinlínis höfðað til þeirra en þegar konur hafa sýnt áhuga á pólitík þá hafa þær virkilega náð árangri. Það eru mörg dæmi sem sanna það. Það hefur ekki þurft að borga neitt sérstaklega fyrir þær til þess eða stofna sérstaka sjóði þeim til hjálpar, þær hafa gert það á eigin spýtur, á eigin forsendum.