Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:29:33 (7006)

1998-05-27 15:29:33# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:29]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla orðum hv. þm., síðasta ræðumanns, um að ég sæi eftir peningum til bændakvenna. Í ræðu minni mælti ég þvert á móti með því að nýsköpunarnámskeiðum yrði komið á laggirnar fyrir konur á landsbyggðinni og að sjóðir væru gerðir þeim aðgengilegri og að atvinnuuppbygging á landsbyggðinni færði konum mannsæmandi laun.

Varðandi 21 milljarðinn sem ég gat um þá skal ég skýra það fyrir þingmanninum að hann kom til tals vegna þess að ég var að mæla með því að í öllum stjórnarfrv. kæmi fram mat á jafnréttismálum, svipað mat og kemur fram núna varðandi kostnað við stjórnarfrv. Þá var ég að mæla með því að það mat væri þó betra en kostnaðaráætlun er oft núna. Ég nefndi í því sambandi einmitt það frv. sem liggur fyrir og er til umræðu, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Samantekið má ætla að áhrif frumvarpsins á ríkissjóð, verði það að lögum, nemi um 5,8 millj. kr. árið 1999, allt að 3,3 millj. kr. árið 2000 og 0,8 millj. kr. árið 2001.``

Þarna er sem sagt ekkert getið um þann 21 milljarð sem þetta frv. kostar í raun. Ég tel að þeim peningum sé reyndar og verði betur varið öðruvísi, jafnvel þó að hluti af því fari til landbúnaðarins og það væri betur komið, ekki síst til þess að styrkja landbúnaðinn, til menntamála, til heilbrigðismála eða til jafnréttismála.

Ég vil að lokum benda þingmanninum á að við kvennalistakonur erum mjög hlynntar því að betur verði hugað að málefnum bændakvenna, og ég vil segja að fyrsti punkturinn í stefnuskrá okkar um landbúnaðarmál segir:

,,Kvennalistinn vill að áhrif kvenna á mótun og stjórnun landbúnaðarins aukist og verði í samræmi við mikilvægi þeirra fyrir þessa atvinnugrein.``