Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:40:37 (7012)

1998-05-27 15:40:37# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:40]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú skýrt það hvernig tekið yrði á þessu máli ef það bærist til stjórnar Byggðastofnunar. Það, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, yrði unnið þannig að þróunarsviðið, sem tekur til starfa eftir einn mánuð norður á Sauðárkróki, kæmi til með að fjalla um þetta mál. Því hafði ég nú reyndar lýst og þarf ekki að endurtaka það sem slíkt.

Vegna þeirra orða þingmannsins að Byggðastofnun hafi ekki unnið þetta verk þó það væri að áliti þingmannsins í hennar verkahring, þá gilda um Byggðastofnun sérstök lög. Það er á grundvelli þeirra laga sem Byggðastofnun starfar en ekki sérstaklega á grundvelli skoðana einstakra þingmanna, þó að þær geti verið hinar bestu og verðmætustu. Þannig ganga málin fyrir sig. Það er kannski vert að geta þess í þessu samhengi að með jafnskýrum rökum mætti spyrja hvers vegna í ósköpunum þingmaðurinn, meðan hún átti sæti í ríkisstjórn Íslands, lét þessi verk ekki ganga fram?

Ég hef mikið og gott álit á hv. þm. og ég verð að segja að mér finnst það afar þægilegt, sem stjórnarformaður Byggðastofnunar, að þingmaðurinn skuli gera meiri kröfur til stofnunarinnar í þessum efnum en til ráðuneytis síns, meðan völdin voru í höndum hennar.