Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:56:40 (7015)

1998-05-27 15:56:40# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:56]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sem sjómaður oft þvælst um í höfnum erlendis og hef séð að það er dálítið misjafnt eftir löndum hve mikið af konum er um borð í skipum. Mér hefur fundist áberandi mikið af konum um borð í rússnenskum skipum og skipum frá austantjaldslöndunum og ég er þá fyrst og fremst með það í huga. Ég hef reyndar enga könnun á bak við það en ég veit að það er töluverður hópur kvenna um borð í slíkum skipum. Ég ætla ekki að segja að það sé nákvæmlega jafnstór hluti og karla en það sýnir samt að þetta er allt saman hægt.

En auðvitað er það oft erfitt fyrir konur að vera um borð í skipum, sérstaklega ef fjölskylda eða börn eru með í spilinu. Það getur að sjálfsögðu verið erfitt, en það getur nú svo sem alveg eins verið jafnerfitt fyrir karla að vera um borð. Auðvitað gæti það líka verið staðan að konan væri á sjó en karlinn í landi að hugsa um barnið. En vilja konur það? Ég hugsa að margir karlar mundu vilja það.

Ég minni bara á það, af því að við erum að ræða á þessum nótum, að mörgum körlum finnst í dag að hlutur þeirra hvað varðar jafnrétti um yfirráð yfir börnum sínum sé mjög skertur. Ég held reyndar að það sé almennur skilningur á því í þjóðfélaginu að það sé því miður orðið þannig, en menn reyna að sameinast um að breyta því.

Konur munu eignast kvóta og hafa margar eignast kvóta, ekki af því að þær hafi verið á sjó heldur vegna þess að þær hafa verið giftar sjómönnum eða skipstjórnarmönnum sem hafa átt aflaheimildir og þær hafi síðan skipst á milli þeirra t.d. við skilnað. En ég hef ekki lengri tíma til að ræða það, herra forseti.