Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 16:02:36 (7018)

1998-05-27 16:02:36# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[16:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Undir lok umræðunnar vil ég fá að leggja nokkur orð í belg. Fyrst vil ég þakka hv. félmn. fyrir afgreiðslu á tillögunni.

Það er náttúrlega mikil fjarstæða sem hefur verið haldið fram að þessi tillaga hafi ekki verið eitthvert forgangsmál frá hendi ráðuneytisins. Hún var lögð fram fyrir jól og hefur verið alllengi í hv. félmn., sem hafði að vísu líka önnur forgangsmál, bæði sveitarstjórnarlög og húsnæðismál sem þurfti að afgreiða fyrir vorið og í þau fór mikill tími. En ég vænti þess að tillagan sé það vel unnin að mikill fengur sé að henni og samþykkt hennar.

Mjög mikil vinna var lögð í undirbúning tillögunnar. Í öllum kjördæmum landsins voru ákaflega fróðlegir og góðir fundir til þess að undirbúa tillögugerðina, til að leita að hugmyndum og til að reyna að örva jafnréttisumræðu um land allt. Mér finnst að það hafi verið ljóður á jafnréttisumræðunni að hún hefur verið einangruð við tiltölulega þröngan hóp. Hún hefur ekki orðið nógu almenn og á þessum fundum úti um land eða í hinum ýmsu kjördæmum þar fengum við ýmsar af þeim hugmyndum sem hér eru að birtast.

Síðan var tillagan tekin til mjög nákvæmrar skoðunar í ríkisstjórn og ráðuneytum áður en hún var lögð fram. Sumir ráðherrarnir lögðu mikla vinnu í að endurskoða kafla um ráðuneyti sín og bæta við og breyta. Gildi tillögunnar er fyrst og fremst það að allir núv. ráðherrar eru fúsir til að vinna að þeim verkefnum sem eru tilgreind í tillögunni. Nú veit ég ekki hvort svo er um þau verkefni sem félmn. bætti við, þ.e. þær brtt. sem nefndin gerði, a.m.k. hef ég ekki borið þær undir hina ráðherrana. En fyrir mitt leyti get ég ágætlega fallist á þær hugmyndir sem þar er hreyft.

Ég tek það fram vegna þess sem hér hefur verið sagt að jafnréttismál eru alls ekki á nokkurn hátt á neinum útjaðri í félmrn. eða nein hornreka að neinu leyti. Þar er unnið að jafnréttismálum af miklum þrótti og við höfum gott fólk til þess að vinna að því með víðtæka þekkingu á jafnréttismálum, reynslu og frjóar hugmyndir. Ég tel að jafnréttismálum sé vel fyrir komið í félmrn. og vil hafa þau í félmrn. og tími ekki að sjá af þeim til forsrh. meðan ég gegni þessu starfi.

Varðandi einstaka þætti sem hefur verið minnst á vil ég minna á, vegna orðaskipta sem urðu áðan um jafnréttisnámskeið eða jafnréttisfræðslu í fjmrn., að eitt af verkefnum sem tiltekin eru á verkefnasviði félmrn., verkefni nr. 3.2, er fræðsla um jafnréttismál:

,,Skipulögð verða námskeið fyrir yfirmenn ráðuneyta og ríkisstofnana og aðra stjórnendur um markmið og leiðir í jafnréttisstarfinu, þeirra hlutverk ásamt kynningu á framkvæmdaáætluninni. Námskeiðin verði haldin á fyrri hluta ársins 1998. Námskeiðin verði haldin með svipuðum hætti og nýafstaðin námskeið um stjórnsýslu- og upplýsingalög.``

Það er sem sagt ekki verið að einangra þessa fræðslu við fjmrn. eins og mér fannst koma fram hjá einum ræðumanni í dag.

Líka er rétt að benda á, og það finnst mér mjög spennandi verkefni sem er á vegum félmrn. og merkt 3.3, þar segir:

,,Skipuð verður nefnd sem falið verður að kanna hvernig megi auka virkni kvenna og þátttöku í almennu stjórnmálastarfi.``

Þetta tel ég að sé mjög mikilvægt lykilatriði, að fá fleiri konur til að gefa sig að stjórnmálastarfi. Allt of fáar konur gefa sig að hinu venjulega stjórnmálastarfi. Þegar maður boðar til stjórnmálafunda, hvar sem er á landinu, er það segin saga að þorri fundarmanna eru karlar. Þeir sem taka þátt í grasrótarstarfinu, þeir sem sýna pólitíkinni áhuga, verða náttúrlega að öðru jöfnu þeir sem standa best að vígi að taka við trúnaðarstörfum þegar þarf að skipa í þau.

Ég hef því miklu meiri trú á að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum með því að örva þær til að taka þátt í hinu almenna starfi frekar en að þær geti ætlast til þess að hoppa inn á toppinn einn góðan veðurdag án þess að hafa unnið að grasrótarstarfinu áður.

Þessi verkefnaáætlun er fyrst og fremst fyrir ríkisstjórnina og ráðuneytin. Hlutur sveitarfélaganna liggur eftir. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þau sinni að sínu leytinu jafnréttismálum með sama hætti eða hliðstæðum hætti og ríkisstjórnin ætlar að gera. Raunar er rétt að geta þess að sum ráðuneytin hafa þegar komið sér upp ágætum jafnréttisáætlunum sem ég vænti að verði til góðs. Það hafa reyndar sum bæjarfélög gert líka.

Ég nefni utanrrn. sem hefur gengið frá mjög metnaðarfullri jafnréttisáætlun og ég nefni Ísafjarðarbæ. Eitt af síðustu verkum síðustu bæjarstjórnar á Ísafirði var að ganga frá jafnréttisáætlun.

Rétt er að það komi fram að fyrir þinglok mun ég leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd síðustu jafnréttisáætlunar. Ég harma að hafa ekki verið búinn að því áður en umræðan fór fram en það hafa orðið á því tafir, m.a. vegna fjarvista starfsmanna sem hafa verið útlöndum og þess vegna seinkaði því um einhverja daga að ég gæti lagt skýrsluna fram en þar er farið yfir hvernig síðasta jafnréttisáætlun hefur verið framkvæmd.

Ég vil líka segja frá því að næsta haust á ég von á því að geta lagt fyrir Alþingi endurskoðuð jafnréttislög og vænti þess að það verði eitt af aðalmálunum sem ég hyggst beita mér fyrir á næsta vetri.

Enn fremur er ástæða til að taka fram að farið er að vinna af fullum krafti eftir ályktun Alþingis um fjölskyldustefnu og fjölskylduráð hefur verið skipað og það er tekið til starfa. Ég vil líka láta þess getið að alltaf þegar óskað er tilnefninga í nefndir eða ráð þá er í bréfinu minnt á 12. gr. jafnréttislaga. Það er alveg fastur liður. Ég hef farið fram á það við samráðherra mína að þeir geri slíkt hið sama. Raunar er félmrn. eina ráðuneytið sem hefur náð því að hafa 40% hlutfall kvenna í nefndum og ráðum en við rétt fljótum yfir 40%. Ég þarf ekki að taka fram að hlutur kvenna í félmrn. er mjög góður og tveir þriðju hlutar starfsmanna eru konur. Ég var í huganum að fara yfir nýráðningar sem hafa verið þar í minni tíð og eftir því sem mér telst til hef ég staðið fyrir ráðningu sex kvenna og þriggja karla í ráðuneytið. Hlutfallið hefur því a.m.k. ekki versnað síðan ég kom í ráðuneytið.

Hér var rætt um fóstureyðingar og ég get alveg tekið undir að þær upplýsingar sem fram komu um tíðni fóstureyðinga fyrir skömmu vekja manni beinlínis ugg. Ég held að fullkomin ástæða sé til þess að kanna það kannski fyrst og fremst á vettvangi heilbrrn. hvað hægt er að gera til þess að draga úr þessari miklu tíðni. Ég hef ekki trú á því að félagslegar ástæður séu þarna yfirgnæfandi. Ég held að þorri fóstureyðinga sé ekki fyrst og fremst til kominn út af fátækt eða bágum kringumstæðum. En þetta er sannarlega atriði sem er ástæða til þess að staldra við og athuga hvort ekki er hægt að gera eitthvað til úrbóta því að þetta er ekki gott til afspurnar.

Varðandi atvinnumál kvenna hefur verið beitt nokkrum sértækum úrræðum til að lagfæra þau mál. Búið er að setja á fót Lánatryggingasjóð kvenna. Hann er tekinn til starfa sem samvinnuverkefni félmrn., iðnrn., viðskrn. og Reykjavíkurborgar. Við höfum ofurlitla fjármuni á fjárlögum á ári hverju til að veita til atvinnumála kvenna, til að styrkja þær til að koma á fót atvinnustarfsemi. Á þessum vetri var stofnað embætti jafnréttisfulltrúa sem á líka að sinna atvinnumálum kvenna og fyrir tæpri viku ákvað ríkisstjórnin að tillögu minni að setja nefnd fimm ráðuneyta á fót til að leita úrbóta vegna atvinnuleysis á Norðurlandi vestra. Atvinnuleysi á Norðurlandi vestra er að miklum meiri hluta atvinnuleysi kvenna.

Ég þakka sem sagt fyrir. Ég fagna því mjög að þessi framkvæmdaáætlun hlýtur afgreiðslu á þessu þingi, ég var orðinn nokkuð óttasleginn um að hún dagaði uppi. Ég vissi hins vegar um góðan vilja formannsins til þess að klára þetta mál líka og ég er mjög þakklátur fyrir að þetta skuli hafa tekist svo vel.

Ég tek einnig fram að ég tel að það sé of snemmt fyrir hv. 5. þm. Reykjaness að hlakka yfir því að þetta sé síðasta árið mitt á ráðherrastóli. Það er ekki hennar að ákveða það. Það getur vel svo farið að ár mín á ráðherrastóli verði eitthvað fleiri en þetta sem nú er nýbyrjað. En það er síðasta ár á þessu kjörtímabili, á það get ég fallist.