Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 16:17:06 (7019)

1998-05-27 16:17:06# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[16:17]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held það sé þess vert að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa áætlun. Ég vil láta það koma í ljós að ég er í grófum atriðum mjög ánægð með hana og fagna því að til standi að endurskoða jafnréttislögin. Meðal þess sem hann hefur gert vel er ágætis rit, Peking-áætlunin á Íslandi, sem félmrn. hefur gefið út.

Eitt í ræðu hans minnti mig á að ákvæðin um að ráðuneyti og ríkisstofnanir gerðu jafnréttisáætlanir eru núna fallin út og það voru aðal vonbrigði mín þegar ég las þessa áætlun. Ég veit að ýmsar stofnanir tóku þetta alvarlega, t.d., eins og hæstv. félmrh. nefndi, Ísafjarðarbær og utanrrn. Ég held að það hefði orðið verulega til bóta ef þetta ákvæði hefði verið inni. Ég veit um ríkisstofnanir, þ.e. Háskóla Íslands og fleiri, sem urðu fyrir vonbrigðum með að þetta væri ekki eins skýrt orðað í þessari áætlun eins og það var í þeirri fyrri. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna þetta var tekið út.