Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 16:20:52 (7023)

1998-05-27 16:20:52# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[16:20]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég met það að ráðherrann gerir sér grein fyrir því að það var ekki sjálfgefið að þetta mál væri afgreitt úr félmn., hef rakið það og endurtek það ekki. Það er mjög margt gott í þessari áætlun enda byggir hún á fyrri áætlunum. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hafa verið haldnir fundir í öllum kjördæmum og margt af okkar fólki tekið þátt í því og þverpólitísk vinna þarna að baki.

Ég spurði ráðherrann um þennan f-lið í tillögu 4.6, hvort ekki mætti líta svo á að hann mundi láta vinna jafnréttisáætlanir út frá þessari tillögu. Hann svaraði því ekki en ég tel að það svar sem hann gaf hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur sé þess eðlis að ég geng út frá því sem vísu.

Að öðru leyti varðandi gagnrýni mína á vinnubrögð og ýmislegt sem ég gagnrýndi ráðherrann fyrir í dag þá er ekkert í máli hans sem breytir henni, hún var réttmæt. Ég þakka samt fyrir góða umræðu hér og tek undir það með þeim sem fjallað hafa um ályktunina sem slíka. Hún verður vonandi mikilvægt gagn, þó að fyrst og fremst skipti máli að orð verði að athöfnum.