Húsnæðismál

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 09:40:06 (7038)

1998-05-28 09:40:06# 122. lþ. 135.2 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 122. lþ.

[09:40]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er gengið til atkvæða í lokaatkvæðagreiðslu um frv. um húsnæðismál. Ríkisstjórnin hefur ekki viljað verða við kröfum samtaka launafólks og nær allra almannasamtaka landsins sem hafa með félagslegt húsnæði að gera og fresta þessu máli fram á haust og reyna á þeim tíma að gera tvennt: Tryggja fjármagn til þess að 1. gr. laganna, þar sem segir að lögunum sé ætlað að auka möguleika fólks að eignast húsnæði eða leigja á viðráðanlegum kjörum, verði annað en öfugmæli og háð gagnvart almenningi í landinu. Í öðru lagi nota tímann til að gera þær grundvallarbreytingar á frv. að um það gæti ríkt sátt í þjóðfélaginu. Þessu hafnar ríkisstjórnin og leggur fram breytingar sem flestar eru smávægilegar og tæknilegs eðlis og breyta engu í grundvallaratriðum.

Við munum sitja hjá við flestar þessar breytingar og leggjum þar með áherslu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.