Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 10:02:42 (7053)

1998-05-28 10:02:42# 122. lþ. 135.3 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 122. lþ.

[10:02]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er komið til lokaafgreiðslu er mikill lagabálkur í 105 greinum sem fjallar um þann ramma sem sveitarfélögunum í landinu ber að starfa innan. Í umræðum um frv. hefur athyglin einkum beinst að 1. gr. frv. sem felur í sér að miðhálendi Íslands verði skipt upp milli þeirra 42 sveitarfélaga sem eiga nú land að miðhálendinu. (MS: 35.) Talan kann að hafa breyst, já. Í mínum huga er brýnast að miðhálendi Íslands verði skipulagt sem ein heild og samkomulag náist um það meðal landsmanna hvernig það skipulag skuli vera og hvaða reglur skuli gilda um nýtingu hálendisins í þágu allra landsmanna.

Ég treysti því að frv. til laga um breytingar á skipulags- og byggingarlögum sem kynnt var nú í vor verði lagt fram strax í byrjun þings í haust og þar verði kveðið á um að hálendið verði skipulagt sem ein heild og fulltrúar sem flestra landsmanna komi þar að verki.

Ég kýs að sitja hjá við endanlega afgreiðslu frv. og ítreka efasemdir mínar varðandi 7. og 68. gr., enda er ég sannfærð um að þau atriði sem lúta að arðgreiðslum stofnana sveitarfélaga og ákvæði um endurskoðendur hljóti að koma til nánari skoðunar og það heldur fyrr en síðar.