Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 10:11:27 (7060)

1998-05-28 10:11:27# 122. lþ. 135.4 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 122. lþ.

[10:11]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða stærsta mál þessa þings sem er frv. til laga um að afhenda einstaklingum eignarráð yfir öllum auðlindum í jörðu. Við teljum að hér sé um að ræða mjög alvarlega aðför að efnahagsgerð þjóðfélagsins og höfum beitt okkur í þingflokki Alþb. og óháðra mjög hart gegn þessu máli.

Við teljum að þær brtt. sem fluttar eru af meiri hlutanum á þskj. 1405 séu út af fyrir sig skref í rétta átt en þær eru meingallaðar, m.a. 2., 3. og 4. brtt. sem kveða á um samráð við ráðuneyti en ekki stofnanir ráðuneytis eins og eðlilegra hefði verið. Þess vegna sitjum við hjá um þær brtt. en greiðum að sjálfsögðu atkvæði með þeim brtt. sem við flytjum sjálf sem eru allmargar á þskj. 1427 og við munum gera grein fyrir jafnóðum og þær koma til atkvæða.