Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 10:14:16 (7063)

1998-05-28 10:14:16# 122. lþ. 135.4 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 122. lþ.

[10:14]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við gerum tillögu um að eignarréttur á auðlindum í jörðu verði takmarkaður með tilteknum hætti en ekki ótakmarkaður eins og ríkisstjórnin leggur til. Hér er um að ræða tilraun til þess að setja og orða takmörkin á annan hátt en reynt hefur verið til þessa. Þar með erum við m.a. að reyna að koma til móts við sjónarmið sem sett hafa verið fram við afgreiðslu málsins.

Mér sýnist hins vegar því miður að ríkisstjórnarliðið hugsi sér að fella þessa tillögu. Vil ég af því tilefni láta það koma strax fram fyrir hönd þingflokks Alþb. og óháðra að við munum við fyrsta tækifæri beita okkur fyrir breytingum á þessum lögum þannig að þessi eignarréttur á auðlindum í jörðu verði takmarkaður með tilteknum hætti sem er unnt samkvæmt stjórnarskránni miðað við þau samtöl sem við áttum við fjölda sérfræðinga í hv. iðnn. um málið.