Skipting aukinna aflaheimilda

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 12:53:53 (7090)

1998-05-28 12:53:53# 122. lþ. 136.96 fundur 424#B skipting aukinna aflaheimilda# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[12:53]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Í þessari viku bárust þau gleðilegu tíðindi að Hafrannsóknastofnun mælir með aukningu á veiðum úr helstu nytjastofnum. Fylgir sögunni að aukningin muni skila þjóðinni milljörðum króna í auknum tekjum.

Ég get ekki séð af áætlun þingsins fram að sumarhléi að til standi að ræða hvernig á að skipta þessari aukningu í veiðiheimildum. Er það meiningin, virðulegi forseti, að þingi ljúki í vor án þess að það sé rætt? Mér er ljóst að ef á að taka upp aðra skiptingu á heimildum en nú er við lýði þarf til þess lagabreytingar. Ég hef orðið vör við það á ferðum mínum um landið að menn hafa bundið miklar vonir við að auknum aflaheimildum kynni að verða skipt öðruvísi en með sjálfkrafa útdeilingu til þeirra sem nú eiga heimildirnar. Til dæmis verði hluta þeirra dreift til þeirra byggða sem hafa farið illa út úr kvótaflóttanum á undanförnum árum þegar misvitrir útgerðarmenn hafa svipt heilu byggðarlögin lífsviðurværi sínu.

Ég trúi því vart að þetta þing fari í sumarhlé að ekki fari fram umræða um þetta mikilvæga mál á hinu háa Alþingi. Ég vil fyrir mitt leyti leggja til að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að umræða fari fram um þetta mál áður en vorþingi lýkur. Annað væri fullkomið skeytingarleysi við fólk í þeim byggðum sem hafa farið illa út úr núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi.