Póstþjónusta

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:22:09 (7100)

1998-05-28 13:22:09# 122. lþ. 136.10 fundur 510. mál: #A póstþjónusta# (einkaréttur ríkisins) frv. 72/1998, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hv. formaður samgn. hefur hér gert grein fyrir nefndaráliti frá samgn. sem ég og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, fulltrúar jafnaðarmanna í nefndinni, höfum skrifað undir með fyrirvara. Ég vil gera grein fyrir fyrirvara mínum í þessu máli.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu fékk samgn. upplýsingar um það frá Íslandspósti að einkaréttarsviðið yrði þrengra, eftir gildistöku þessa frv. og samkeppnissvið póstþjónustu muni því stækka. Við fengum einnig upplýsingar um það hjá samkeppnisaðila Íslandspósts, fyrirtækinu Póstdreifingu hf., að svo væri ekki, þetta væri alveg öndvert. Ég treysti mér ekki til að meta þetta og þess vegna skrifa ég undir nefndarálitið með fyrirvara.

Ég óttast að með þessari breytingu verði samkeppni á þessu sviði illmöguleg en málið verður að njóta vafans. Ef það kemur síðan í ljós, við framkvæmd laganna, að einkarétturinn víkkar frekar en þrengist og samkeppni verði illmöguleg, þá verðum við að taka lögin upp og breyta þeim í kjölfarið. Það er alveg ljóst. Ég skrifa sem sagt undir þetta nefndarálit með fyrirvara en legg áherslu á að skoða verði þessi mál betur ef í ljós kemur að markmiðin sem við settum okkur þegar við samþykkjum þessa breytingu á lögunum munu ekki nást.