Eftirlit með skipum

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:40:02 (7106)

1998-05-28 13:40:02# 122. lþ. 136.13 fundur 593. mál: #A eftirlit með skipum# (farþegaflutningar) frv. 74/1998, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:40]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi froseti. Ég vil nú aðeins koma inn í þessa umræðu í framhaldi af því sem hv. 10. þm. Reykv. vék að. Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að þetta mál hlaut allmikla umræðu áður en það kom hér inn í þingið, sérstaklega hjá hagsmunaaðilum. Eftir því sem ég best man fékk þetta mál m.a. ítarlega umfjöllun í siglingaráði þar sem bæði útgerðarmenn og sjómenn eiga fulltrúa. Enn fremur eru þar fulltrúar Siglingastofnunar sem hafa með það að gera hvaða kröfur eru gerðar til búnaðar skipa og þeirra þátta, þannig að ég tel ástæðu til að ætla að um þessi mál hafi verið fjallað af þeim mönnum sem gleggst mega um þetta vita og þekkja þetta mál langsamlega best.

Hv. þm. spurði hér nokkurra spurninga sem sjálfsagt er að reyna að svara. Í fyrsta lagi varðandi staðsetningu leyfisins, þá er það auðvitað svo að við töldum nú ekki ástæðu til þess að segja það í lögunum nákvæmlega hvar þetta leyfi ætti að vera staðsett að öðru leyti en því að það ætti að vera um borð í skipinu, þannig að það væri aðgengilegt. Það sem hér er auðvitað fyrst og fremst verið að leiða í lög er að tryggja að fólk, sem ferðast með slíkum skipum og nýtir sér þessa þjónustu, geti gengið út frá því sem gefnu að þessi skip uppfylli lágmarksreglur, m.a. um mönnun, um þekkingu skipstjórnarmanna, um aðbúnað um borð. Það hefur komið fram gagnrýni, m.a. frá ferðaþjónustuaðilum í þessari grein, á að aðbúnaðurinn sé mjög misjafn. Þeir telja að sums staðar séu gerðar miklar kröfur, annars staðar séu þær sömu kröfur ekki gerðar. Hérna er eingöngu verið að jafna þessi samkeppnisskilyrði og tryggja öryggi og réttindi þess fólks bæði sem vinnur á þessum skipum og enn fremur auðvitað farþeganna sjálfra.

Það var ekki gert ráð fyrir því að verið væri að fella úr gildi ákvæði annarra laga varðandi mönnun skipa, gerð skipa eða fyrirkomulags varðandi búnað og þess háttar. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að Siglingastofnun beri að hafa til hliðsjónar lög sem eru í gildi varðandi þessa þætti. Eins og hér segir, með leyfi forseta:

,,Fyrir slík skip skal fjöldi í hverri áhöfn ákveðinn af Siglingastofnun Íslands með hliðsjón af gerð skips, fyrirkomulagi þess og búnaði, svo og farsviði þess og útivist, þannig að fjöldi í áhöfn og skipting starfa fullnægi skilyrðum um að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi farþega, skipverja og skips.``

Ég held nú, virðulegi forseti, að þegar maður les þetta í þessu samhengi þá sé ljóst að í lagasetningunni er ekki reynt að búa til nýjar réttarvenju nema síður sé. Þar er eingöngu verið að vísa til og gera þá leiðsögn fyrir Siglingastofnun Íslands að hún byggi á þeim lögum sem eru í gildi.

Varðandi þá spurningu sem hv. þm. spurði um körfur um búnað skips þá voru þau mál ekki rædd sérstaklega í nefndinni umfram það sem kemur fram í sjálfum frumvarpstextanum. En það verður að segjast eins og er, að þeir umsagnaraðilar sem við leituðum til, sem ég hygg að hafi verið allmargir, þó nokkrir skiluðu til okkar áliti og þar á meðal Siglingastofnun Íslands þar sem þessi mál höfðu verið rædd faglega af öllum hlutaðeigandi aðilum, komust allir að þeirri niðurstöðu að þetta frv. væri mjög til bóta og við værum hér að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem efst væru á baugi í þessari grein. Við töldum því ekki ástæðu til þess, á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfðum þegar nefndin fór yfir þetta mál, að gera frekari efnisbreytingar en þessar. Eina efnisbreytingin sem við í rauninni gerum er sú að færa tryggingarákvæði frv. fram til 1. ágúst þannig að það geti tekið gildi fyrr. Við höfðum kynnt okkur það að tryggingafélög t.d. væru tilbúin að standa að þessu máli og hefja þessar tryggingar strax um mitt árið.

Hér er fyrst og fremst um að ræða frv. sem á að tryggja öryggi ferðamanna og þeirra sem vinna við þessa útgerð. Þess vegna töldum við að hér væri eingöngu um að ræða framfaramál sem mikilvægt væri að kæmust í gildi sem fyrst.