Loftferðir

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:50:58 (7110)

1998-05-28 13:50:58# 122. lþ. 136.15 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv. 60/1998, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:50]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Það hefur orðið aðeins opinber umræða um eitt atriði í 140. gr. þessa mikla frv. sem senn verður nú að lögum, þar sem segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Flugmálastjórn skal gefa út upplýsingabréf um flugmál og flugmálahandbók. Skulu allir handhafar flugrekstrarleyfa og flugkennsluleyfa, útgefinna af Flugmálastjórn, vera áskrifendur að útgáfum þessum. Í flugmálahandbók skulu birtar þær ákvarðanir Flugmálastjórnar sem teknar eru á grundvelli laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og hafa almennt gildi en birtast ekki í Stjórnartíðindum. Skulu þær vera á íslensku eða ensku eftir því sem við á.``

Til þess að taka af öll tvímæli um þetta hef ég leyft mér að flytja eftirfarandi breytingartillögu við 140. gr. þar sem bætist við síðustu setninguna eftirfarandi málsliður:

,,Samgönguráðherra er heimilt að höfðu samráði við Íslenska málnefnd að kveða nánar á um útgáfu þeirra með reglugerð.``

Ég held að hin opinbera umræða hafi skýrt það að hér er ekki um að ræða ásetning um að taka almennt upp að hafa Stjórnartíðindi á ensku eða erlendum tungumálum heldur er eingöngu verið að tala um mál sem eðli málsins samkvæmt eiga ekki erindi eða þjóna ekki tilgangi að koma fyrir margra augu eða fáir hafi mikinn áhuga á að lesa skulum við öllu heldur segja, og ekki sé sérstök ástæða til að leggja út í mjög mikinn kostnað við að þýða þessar tilskipanir eða þessi plögg. Enn fremur er rétt að vekja athygli á því að flugmálin eru í eðli sínu alþjóðleg starfsemi og flugrekstraraðilarnir hafa orðið að þýða á ensku þessi mál sem hér er fjallað um þannig að hér er eingöngu um að ræða fullkominn tvíverknað sem þjónar engum tilgangi fyrir málvöndun eða verndun íslenskrar tungu. Ég held því að mikilvægt sé að eyða þeim misskilningi. En við höfum kosið að leggja fram þessa brtt. til að taka af öll tvímæli um að ekki er verið að opna neinar almennar heimildir um að birta alla skapaða hluti á ensku sem lýtur að loftferðalögunum í landinu.