Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 15:07:32 (7116)

1998-05-28 15:07:32# 122. lþ. 136.19 fundur 521. mál: #A almenn hegningarlög# (fyrning sakar) frv. 63/1998, Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[15:07]

Frsm. allshn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. á þskj. 1295, um frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Allshn. hefur fjallað um málið og fékk Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti, Hallgrím Ásgeirsson lögfræðing og Þórhildi Líndal, umboðsmann barna, á sinn fund til viðræðna um málið. Þá bárust nokkrar umsagnir um málið sem stuðst var við við yfirferð nefndarinnar.

Í frv. eru lagðar til breytingar á IX. kafla almennra hegningarlaga, um fyrningu sakar og brottfall viðurlaga. Helstu nýmælin í frv. eru tillaga þess efnis að sakarfyrningarfrestur vegna kynferðisafbrota gegn börnum, skv. 194.--202. gr. almennra hegningarlaga, teljist aldrei fyrr en frá þeim degi er barnið nær 14 ára aldri. Tilefni frv. má m.a. rekja til ábendinga umboðsmanns barna. Breytingunni er ætlað að aðlaga fyrningarreglur hegningarlaga að þeim aðstæðum sem upp geta komið þegar kynferðisbrot beinast gegn börnum. Þótti rétt að miða aldursmarkið við 14 ár en það þýðir að fresturinn byrjar aldrei að líða fyrr en við það aldursmark. Getur fyrningarfrestur verið allt frá 5 til 15 ára. Þannig má nefna sem dæmi að ef 5 ára fyrningarfrestur er ekki rofinn, fyrnist sök þegar brotaþoli nær 19 ára aldri. En ef fyrningarfrestur er lengri, t.d. 10 ár, fyrnist brot þegar brotaþoli nær 24 ára aldri og brot fyrnist við 29 ára aldur brotaþola ef fyrningarfrestur er 15 ár.

Ætla má að brotaþoli hafi almennt, innan frestsins, náð nægilegum þroska til að gera sér grein fyrir afbrotinu og haft möguleika til að kæra það. Þá verður einnig að líta til þess við ákvörðun fyrningarfrests að ýmis lagarök fyrir fyrningu sakar eru viðurkennd í refsirétti, t.d. að erfitt er að rannsaka mál og afla sönnunargagna ef mjög langt er síðan afbrot var framið.

Í frv. er einnig lögð til breyting þess efnis að undangengin rannsókn rjúfi ekki fyrningarfrest ef opinberu máli er vísað frá héraðsdómi og ekki er hafist handa við að bæta úr ágöllum á málatilbúnaði ákæruvaldsins innan sex mánaða frá þeim degi. Einnig er lagt til að fyrningarfrestur fésektar lengist um tvö ár ef greiðsla sektar hefur verið tryggð með fjárnámi eða öðrum sambærilegum hætti innan frestsins.

Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt.

Undir nál. skrifa Sólveig Pétursdóttir, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason, Kristján Pálsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson og Hjálmar Jónsson en Jóhanna Sigurðardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.