Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 15:10:32 (7117)

1998-05-28 15:10:32# 122. lþ. 136.19 fundur 521. mál: #A almenn hegningarlög# (fyrning sakar) frv. 63/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í frv. er lagt til að sakarfyrningarfrestur vegna kynferðisafbrota gegn börnum teljist aldrei fyrr en frá þeim degi er barnið nær 14 ára aldri. Við sem skipum minni hlutann, sem eru ásamt mér hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir, leggjum til að ekki verði miðað við 14 ára aldur, heldur sjálfræðisaldurinn 18 ár. Það er í samræmi við frv. sem við höfum flutt fyrr á þessu þingi. Þar voru flm. ásamt mér hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Kristín Halldórsdóttir. Þar lögðum við til að miðað yrði við sjálfræðisaldurinn. Í því frv. lögðum við einnig til að það mælt yrði fyrir um eins árs lágmarksrefsingu vegna kynferðisafbrota gegn börnum.

Í samræmi við þetta frv. leggjum við til að miðað verði við sjálfræðisaldurinn og færum þau rök fyrir því að kynferðisbrot gegn börnum eru í augum þjóðarinnar einn alvarlegasti glæpur sem framinn er, enda ljóst að sá glæpur getur eyðilagt líf þolenda um alla framtíð.

Við leggjum til að fyrning sakar hefjist ekki fyrr þolandi brots hefur öðlast sjálfræði, þ.e. náð 18 ára aldri. Rökin fyrir þessari breytingu lúta að eðli kynferðisbrota gegn börnum en algengt er að ekki sé upplýst um slík brot fyrr en löngu eftir að þau voru framin. Þannig fyrnast mörg kynferðisbrot gegn börnum löngu áður en börn verða fullorðin og sjálfstæð og líkleg til að tjá sig um brot sem framin hafa verið gegn þeim í æsku. Þetta er í samræmi við ákvæði 194. gr. hegningarlaga um nauðgun en þar er fyrningarfrestur 15 ár og þolandinn a.m.k. 14 ára þegar brotið er framið. Í þeim lögum eru yngstu brotaþolarnir farnir að nálgast þrítugt þegar brotið fyrnist.

Ég vil í lokin benda á það, herra forseti, að þeir sem skilað hafa áliti um þetta mál eða umsögn til nefndarinnar, mæla með þeirri tillögu sem við flytjum, þ.e. að miðað sé við sjálfræðisaldurinn. Þar nefni ég umboðsmann barna, Barnaheill, Félagsmálastofnun Reykjavíkur og Barnaverndarstofu.

Vissulega er sú leið sem lögð er til í þessu stjórnarfrv. skref í rétta átt en við teljum rétt að ganga lengra í samræmi við það frv. sem við höfum áður flutt á þessu þingi. Í brtt. okkar leggjum við til að fyrning sakar hefjist ekki fyrr en við sjálfræðisaldurinn, við 18 ára aldur.