Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 15:13:20 (7118)

1998-05-28 15:13:20# 122. lþ. 136.19 fundur 521. mál: #A almenn hegningarlög# (fyrning sakar) frv. 63/1998, BH
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[15:13]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil í örstuttu máli gera grein fyrir ástæðum þess að ég var með fyrirvara við þetta annars ágæta mál. Ákvæði frv. eru vissulega til bóta en ástæðu fyrirvarans má kannski fyrst og fremst finna í þeirri brtt. sem Jóhanna Sigurðardóttir hv. þm. hefur þegar gert grein fyrir og stjórnarandstöðuþingmennirnir í hv. allshn. stöndum allir að.

Í frv. er, eins og hér hefur verið rakið, verið að breyta fyrningarreglum varðandi kynferðisbrot að því leyti að fyrningarfrestur í kynferðisbrotamálum gegn börnum byrji í raun veru aldrei að líða fyrr en við 14 ára aldur. Fyrningarfresturinn getur síðan verið langur, ef ég man rétt allt að 15 árum, þannig að fyrningarfrestur er kannski útrunninn við 29 ára aldur í alvarlegustu brotunum og fyrr í þeim sem eru með skemmri fyrningarfresti.

Aðalrökin fyrir því að vilja ganga lengra en gert er í þessu frv. eru þau að við teljum að í slíkum brotum, sem kynferðisafbrot gegn börnum eru, sé mjög óeðlilegt að gera ráð fyrir því að börn sem verða fyrir slíku broti séu yfirleitt hæf til þess að hugsa um að sækja til saka þann sem braut á þeim fyrr en við sjálfræðisaldur. Við teljum því í raun og veru engin sérstök rök liggja fyrir þessu 14 ára aldurstakmarki. Það er vissulega til bóta að fresturinn byrji ekki að líða strax en í raun og veru eru engin efnisleg rök fyrir því að miða við 14 ára aldur en ekki 18 ára aldur. A.m.k. eru það ekki rök sem við teljum hægt að fallast á. Við viljum líka, máli okkar til stuðnings, benda á umsagnir frá nánast öllum þeim sem hafa með málefni barna að gera í samfélaginu. Barnaheill, Barnaverndarstofa, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og fleiri taka undir þetta og telja æskilegt að ganga alla leið og miða við 18 ára aldursmarkið. Það er talið eðlilegt aldursmark að miða við vegna þess að það er sjálfræðisaldurinn.

Þetta er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að við skrifum undir nál. með fyrirvara. Brtt. hefur verið lögð hér fram og verið mælt fyrir henni. Við leggjum eindregið til að hún verði samþykkt og að þannig getum við komist til móts við kröfur m.a. af hálfu umboðsmanns barna og fleiri sem starfa á vettvangi barna hér í samfélaginu.