Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 16:47:01 (7128)

1998-05-28 16:47:01# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[16:47]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á nú reyndar ekki mjög mikið erindi hingað til að svara hv. formanni samgn. Alþingis. Hann vill láta líta svo út sem þessi umræða um jarðgöngin hafi ekki neitt gildi sem slík. Þá er spurningin: Til hvers eru menn þá að setja þetta inn í nál. ef það á ekki að þjóna neinum tilgangi? Ég hef aldrei vitað til að ekki væri einhver merking í þeim orðum sem fjallað væri um í nál.

Að því er varðar skiptingu vegafjár á Austurlandi var það góður kostur að formaðurinn skyldi staðfesta að þarna hefðu orðið mistök og ég tók það skýrt fram að svo væri. Það sem okkur greinir á um, og eins og hann segir þá erum við aðeins ósammála um eitt. Af hverju eru mistökin ekki leiðrétt yfir allt áætlunartímabilið? Af hverju eru aðeins fyrirheit um að leiðrétta hluta af áætluninni? Um það og ekkert annað erum við þá ósammála. Frsm. hefur hins vegar ekki sagt frá því, fyrst hann vill leiðrétta þessi mál frá árinu 2002, hvers vegna hann vill ekki leiðrétta þau frá árinu 1999.