Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 16:49:24 (7129)

1998-05-28 16:49:24# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[16:49]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eingöngu varðandi þessi mál sem við erum að ræða hér, ítreka að það felst engin áherslubreyting varðandi röðun framkvæmda á jarðgangasviðinu í tillögunni sem við erum að fjalla um. Alls ekki. Það sem við höfum einfaldlega sagt hér er að það er verið að skoða þrjá kosti í þessu sambandi. Þeir eru á Austfjörðum, á Norðurlandi og á Vestfjörðum. Það sem hér er einfaldlega gert í þessu nál. meiri hluta nefndarinnar er að vakin er athygli á því að þetta sé einn af þeim kostum sem er verið að skoða þegar fjallað er um tenginguna milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Hins vegar er engu slegið föstu um það frekar.

Hitt, varðandi skilgreininguna á Austfjörðum, vil ég ítreka með því að lesa hér upp úr meirihlutaálitinu þar sem segir í fyrsta lagi, virðulegi forseti, og þar er átt við tillögu sem hæstv. samgrh. lagði fram fyrr á þinginu:

,,Í skilgreiningum verkefna í tillögunni er við það miðað að hringvegurinn á Austurlandi liggi ekki um Skriðdal og Breiðdal eins og hann gerir í þjóðvegaskrá heldur um Suðurfjarðaveg.``

Það er síðan niðurstaða meiri hluta samgn. að fallast ekki á það sem kemur fram í tillögu hæstv. samgrh. og þess vegna leggur meiri hlutinn til að tillögunni verði breytt, þ.e. þannig að hringvegurinn sé skilgreindur í samræmi við þjóðvegaskrá. Það er þetta sem ég held að sé mikilvægt að liggi alveg fyrir.