Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 17:25:02 (7134)

1998-05-28 17:25:02# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[17:25]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að í brtt. meiri hlutans liggur fyrir áætlun Vegagerðarinnar um það hversu mikið það kosti á öðru og þriðja áætlunartímabili að tengja Þórshöfn eða Norður-Þingeyjarsýslu og Vopnafjörð við hringveginn. Þar er það rétt um 2,5 milljarðar kr. sem upp á vantar þannig að það kemur fullkomlega saman við það sem ég sagði áðan og er þó gert ráð fyrir nokkru fé á árunum 2001 og 2002 til þessara verkefna beggja.

Það er því ljóst að hv. þm. hafa ekki hugsað sér að þessi fjárveiting ætti að taka til landsins alls enda væri þá fróðlegt að heyra hvernig hv. flm. og frsm. minni hlutans skýrir hversu vel þessar krónur eigi þá að endast til alls verksins. Því ef ekki vantar upp á nema 2,5 milljarða til að tengja alla þéttbýlisstaði hringveginum eftir tvö ár þá verð ég nú að segja að myndarlega er að framlögum staðið.

Hv. þm. sagði einnig áðan að á næstu átta árum ætti ekki að gera nokkurn skapaðan hlut í Norður-Þingeyjarsýslu á veginum frá Húsavík til Þórshafnar og las blaðagrein því til stuðnings um vont ástand vegarins yfir Tjörnes, sem er laukrétt, það er ekki gott og allra síst nú eftir mikla grjótflutninga um það svæði. Þó er það nú svo að á þessum átta árum á að verja 1.350 millj. kr. einmitt til þessarar vegagerðar af stórverkefnafé. Það er því síður en svo að engu fé sé til þess varið heldur miklu, miklu meira fé en nokkru sinni fyrr hefur verið varið á jafnskömmum tíma til vegagerðar í þessum landshluta.