Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:08:29 (7138)

1998-05-28 18:08:29# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:08]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að sammæli er með mér og hv. þm. sem vinnur að þessum málaflokki í þinginu og ég gleðst yfir því að hann hefur fengið blessun yfir þá tillögu sem hann mun hafa haft forgöngu um varðandi samþætta samgönguáætlun. Ég vona sannarlega að á málinu verði þá tekið þó að seint sé, betra er seint en aldrei í því efni.

Varðandi hinn þáttinn hlýt ég einnig að taka því jákvætt og vel að hv. þm. telur Austfirðinga eiga það inni hjá Alþingi Íslendinga og stjórnvöldum að jarðgangaframkvæmdir, þegar og ef, verði þar í fjórðungi. En því miður vega slík orð ekki þungt, ég segi því miður, þótt góð séu orðin þá vega þau ekki þungt þegar litið er til þess að þrjú kjörtímabil munu líða, ef mark á að taka á þessari vegáætlun, þar til hugsanlega yrði ráðist í jarðgangaframkvæmdir í landinu. Þannig er útlitið, því miður.