Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:14:51 (7142)

1998-05-28 18:14:51# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:14]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef viljað halda mig við að ræða mál a.m.k. á þingi út frá því eina lífi sem mönnum er nokkurn veginn tryggt og víst, eins og vikið er að í alþekktu ljóði, og byggja ekki um of á trúarlegum viðhorfum eða kenningum.

Að því er snertir vegaframkvæmdir um Lágheiði eða spurninguna um jarðgöng, þá geta menn auðvitað lengi skemmt sér við að hafa uppi útleggingar, ég leyfi mér að nota orðið útleggingar af þessum toga eins og hv. þm. er snillingur í, að leggja út af textum. Og ef það getur verið einhverjum til skemmtunar í heimasóknum, (Gripið fram í: Uppbyggingar.) og uppbyggingar hugsanlega, hugléttis, skulum við segja, þá ætla ég ekkert að hafa á móti því. En ég spái því að alla vega eigi eftir að renna allnokkurt vatn áður en til slíks kæmi að þær hugmyndir gangi upp. Allt er þetta heldur lítilfjörlegt miðað við þann veruleika sem markaður er, ef hann skal yfir okkur ganga eins og hann er markaður í þessum áætlunum, en auðvitað verðum við að vona að það takist að breyta þeim til muna á róttækan hátt frá því sem þær eru lagðar hér fyrir þingið.