Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:19:28 (7144)

1998-05-28 18:19:28# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:19]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég má segja það vegna þess að hv. þm. Hjálmar Jónsson hefur vikið úr sal, að hæstv. ráðherra fór þannig hér með útleggingar á tillögum okkar alþýðubandalagsmanna að það minnti á þá sem leyfa sér að lesa Faðirvorið aftur á bak. Og ekki þarf meira um það að segja.

Hvað varðar undirbúning jarðganga eru það auðvitað ekki ný sannindi sem hæstv. ráðherra sagði. Það er mjög snyrtilegt og vel að verki staðið hjá hæstv. ráðherra að koma hér og rifja upp fyrir mönnum að huga þurfi svolítið fyrir fram að framkvæmdum eins og jarðgöngum.

En hver bannaði hæstv. ráðherra að gera það á undanförnum ekki bara tveim, þrem, árum heldur á þeim tíma sem hæstv. ráðherra hefur gegnt ráðuneyti samgöngumála? Þar hefur sannarlega ekki verið að því unnið að undirbúa jarðgangaframkvæmdir, enda hugur ekki staðið til þess heldur til einhvers allt, allt annars.

Í sambandi við tillögur okkar alþýðubandalagsmanna, mín og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, um að taka Vopnafjörðinn í landskerfi samgangnanna, landskerfi veganna, ætti það nú ekki að vefjast fyrir hæstv. ráðherra að skilja hvað þar var lagt til og hvaða gildi slík framkvæmd hefði haft. Hún var ekki að keppa við bráðabirgðaveg eða lagfæringu á vegi yfir Hellisheiði. Sú ákvörðun var tekin löngu fyrr í góðu samráði við heimamenn að fara út í þær endurbætur. Þar var um að ræða stefnumörkun til framtíðar, tillaga sem síðast var flutt 1994, ef ég man rétt, og sem hefði gjörbreytt aðstæðum ekki aðeins Vopnafjarðarbyggðar og nágrennis heldur landskerfisins í heild.

En hæstv. ráðherra notaði sitt afl til allt annars og við það verðum við að búa að því er sýnist.