Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:23:42 (7146)

1998-05-28 18:23:42# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð náttúrlega að taka undir þegar fram komnar þakkir til hæstv. samgrh. fyrir að vitna hér æ ofan æ til tillögu sem við fimm þingmenn Alþb. og óháðra höfum flutt á Alþingi sem hljóðar eins og hæstv. ráðherra nefndi. En með einhverjum hætti hefur þessi tillöguflutningur okkar ekki fallið í frjóa jörð hjá hæstv. ráðherra og ég vil ekki hafa uppi neinar getsakir hver skýringin er. E.t.v. er það sá samanburður sem er við þau mál sem hæstv. ráðherra leggur hér fyrir þingið í vegamálum og sárindi út af þeim samanburði sem um er að ræða.

Um það efni að ekki sé ráð að gera tvennt í einu þ.e. að leggja vegi yfir fjöll og fara í gegnum þau með jarðgöng, þá er ekki ýkja mikil speki sem í því birtist. Þegar lagfæringar voru gerðar á Hellisheiði --- því það voru vegasamgöngur við Vopnafjörð sem hér voru til umræðu --- þá var til þeirra varið á nokkurra ára bili samtals 200 millj. kr. og rættist betur úr með nýtingu á því fé en þeir svartsýnustu héldu. En samanburður við jarðgangagerð og á slíkum upphæðum er að sjálfsögðu út í hött, og það ætti náttúrlega ráðherra samgöngumála að vita manna best. Jarðgöng verða auk þess ekki lögð í vetfangi, það hefur ráðherrann einnig rifjað upp, það þekkjum við.

Og ber að skilja orð hæstv. ráðherra þannig að sé kominn vegur í einhverju formi yfir fjallveg, þá séu menn í rauninni búnir að útiloka, a.m.k. um allanga framtíð að til greina komi að fara í gegnum fjallið með jarðgöng? Ég er ansi hræddur um að þeim sem eru að horfa til vegarlagningar t.d. milli Eyjafjarðar og Siglufjarðar um Lágheiði, yfir eða undir, hugnist nú ekki mjög vel röksemdafærsla af þessu tagi.