Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:41:20 (7150)

1998-05-28 18:41:20# 122. lþ. 136.21 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., Frsm. HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:41]

Frsm. allshn. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili því áliti með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þetta sé stórmál og alvarlegt. Það eru margar siðferðisspurningar sem þarf að svara í þeim. Því hafði hæstv. dómsmrh. sett þau í þennan ákveðna farveg, að skipa nefnd með breiðri skírskotun og með sérfræðingum til þess að fara yfir málin og leggja væntanlega fyrir í haust.

Það eru mörg vandamál sem tengjast spilafíkn, eins og hv. þm. gat um, og þeim vafasömu áhrifum sem kassarnir hafa í þjóðfélaginu. Vafalaust hentar það nefndinni sem skipuð hefur verið til að fara yfir þessi mál að hafa til hliðsjónar í starfi sínu umfjöllun um þau á Alþingi Íslendinga. Ég er líka viss um að málið er síður en svo fullrætt hér á hinu háa Alþingi. Hitt er annað mál að erfitt getur reynst að hindra að fólk fari sér að voða í slíkum spilum. Mér er sagt að hægt sé að stunda fjárhættuspil gegnum internetið og vafalaust mætti margt annað ræða í þeim efnum.

Siðferðisspurningarnar hljóta alltaf að koma upp í þessu og það má líka velta fyrir sér þeirri siðferðisspurningu hvort ríkið eigi að selja áfengi en leggja síðan í mikinn kostnað til þess að minnka þá ógæfu sem það hefur í för með sér.