Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:43:07 (7151)

1998-05-28 18:43:07# 122. lþ. 136.21 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Jónssyni fyrir hans orð. Ég er sammála honum um flest enda er ég viss um að við erum sammála um þetta alvarlega mál.

Hinu vil ég mótmæla, að hægt sé að leggja þetta að jöfnu við sölu ríkisins á áfengum drykkjum. Ég held að fáir, hvort sem er hér á Alþingi eða í þjóðfélaginu almennt, sem leggja vilja blátt bann við sölu á áfengi. Við þessu á hins vegar að leggja blátt bann. Við spilakössum af þessu tagi á að leggja blátt bann. Fyrsta skrefið í því efni er að samþykkja lög sem meina háskólanum og þessum virtu samtökum að afla peninga til sinnar starfsemi á spilafíkn fólks. Að sjálfsögðu þarf þá að koma til sögunnar eitthvað annað vegna þess að hér er um að ræða starfsemi sem er þjóðfélagslega mikilvæg og góðra gjalda verð. Á því þarf þá að sjálfsögðu að taka.