Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:45:30 (7153)

1998-05-28 18:45:30# 122. lþ. 136.21 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér einungis til að segja að ég er ósammála því að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar, þar með er það dautt. Ég tel þetta vera þjóðþrifamál og tek heils hugar undir með málflutningi hv. þm. Ögmundar Jónassonar fyrr í umræðunni. Ég þekki í mínu næsta nágrenni ekki eitt heldur tvö mjög alvarleg dæmi um hvernig þessi spilavíti hafa leitt til fíknar hjá einstaklingum sem hafa að öðru leyti ekki látið ánetjast neinni annarri fíkn. Þetta hefur haft hrikalegar afleiðingar fyrir fjárhag þeirra, rústað fjölskyldum þeirra og í öðru tilvikinu leitt til glæpa vegna þess að menn grípa til hvaða örþrifaráða sem er til þess að fjármagna slíka fíkn.

Ég segi líka, herra forseti, að mér finnst það sárgrætilegt að jafnvirðuleg stofnun og Háskóli Íslands skuli eiga þátt í þessu. Ég vek athygli á því að hjá háskólanum eru í gangi rannsóknir á hvers kyns fíkn og hvernig megi binda endi á hana. Og auðvitað felst í því mjög undarleg þverstaða að háskólinn skuli annars vegar reyna að sinna rannsóknum til að finna hvernig hægt er að bjarga einstaklingum sem verða fíkn, m.a. af þessu tagi, að bráð og hins vegar skuli hann þiggja fjármagn með því að skapa þessa fíkn. Það er einungis ein lausn á því, herra forseti, og hún er sú að háskólinn og aðrar stofnanir, eins og t.d. SÁÁ sem hér var nefnd áðan, hætti þátttöku sinni í þessu. Ég tel að það væri jákvætt og að sómi þessara tveggja stofnana fælist í að þær gerðu það.