Ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:41:56 (7170)

1998-06-02 10:41:56# 122. lþ. 139.92 fundur 428#B ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg tilvalið að ræða það hver aðdragandi óundirbúinna fyrirspurna er, sérstaklega vegna þess að ég taldi mig muna að þegar það kerfi, að skrá um hvaða efni við þingmenn ætluðum að spyrja ráðherra, var tekið upp, þá hafi forseti orðað það svo að mjög óþægilegt væri fyrir ráðherrana að vita ekki einu sinni inn á hvaða svið þingmenn ætluðu að koma. Þegar ég átti orðastað við fjmrh. fyrir rúmri viku síðan kom það mér á óvart, þegar við spjölluðum saman á eftir, að hann skyldi ekki hafa vitað um efni fyrirspurnar minnar fyrir fram. Ég sagði við hann að ég hefði alltaf haldið að þessir miðar væru m.a. til þess að upplýsa ráðherrana aðeins. Það er því ágætt að það sé á hreinu að miðarnir eru fyrir forsetana, svo þeir viti um hvað við ætlum að spyrja ráðherrana.

Herra forseti. Ráðherra er í vörn. Hann kemur hér og ræðst á þingmann fyrir orð hans í morgunútvarpi. Nú skal hrekja málflutning og nú á forseti að skera úr um hvort þingmaður segi satt. Ef þetta er ekki orðið dæmalaust. Við þingmennirnir þurfum ekki að biðja forseta að úrskurða hver segi satt í máli ráðherrans. Hann hefur sjálfur lagt fram gögn sem dæma orð hans úr þessum ræðustól. Það eru gögnin hans sem upplýsa alla þjóðina um það sem hér hefur verið sagt.

Herra forseti. Það er sjálfsagt að ræða um það hvernig óundirbúnar fyrirspurnir ganga fyrir sig en það sem er að gerast hér á þessum morgni er dæmalaust.