Ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:50:06 (7175)

1998-06-02 10:50:06# 122. lþ. 139.92 fundur 428#B ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir# (aths. um störf þingsins), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:50]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það liggur fyrir með hvaða hætti staðið er að óundirbúnum fyrirspurnum í þinginu og hv. þm. fór með hrein ósannindi í þessum viðtalsþætti á Bylgjunni í morgun. Það er hins vegar svo, herra forseti, að allt þetta mál hefur nákvæmlega verið rekið á þessum grunni af hv. þm., með þessum málflutningi sem hv. þm. fór með í áður umræddum útvarpsþætti í morgun.

Nú hefur það verið staðfest að þannig hefur verið haldið á málum alla tíð af hálfu hv. þm. Það er mjög mikilvægt að fá það undirstrikað hér þannig að mönnum sé ljóst með hvaða hætti hv. þm. hefur rekið málið áfram. Ég gæti nefnt mörg önnur dæmi um hrein ósannindi sem höfð eru eftir hv. þm. í mörgum fréttaviðtölum og útvarpsviðtali í morgun.

Af því að hér er að verða til nýtt afl á Alþingi eins og fram kom í útvarpsfréttum í gærkvöldi, siðprúðar konur, þá býst ég við að þetta verði meginstefið í málflutningi siðprúðra kvenna sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur verið með í umræðunni í Bylgjunni í morgun.