Ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:51:57 (7176)

1998-06-02 10:51:57# 122. lþ. 139.92 fundur 428#B ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:51]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er ekki deilt um hver sé úrskurður forseta um aðdraganda óundirbúinna fyrirspurna á þessum morgni. Það eru viðbrögðin við málflutningi ráðherra sem ætlar að hvítþvo sjálfan sig með því að ráðast á þingmann sem er að tala um aðdraganda og hvernig þingmenn skila af sér blöðum með upplýsingum um hvað þeir ætla að spyrja um. Allt þetta vandræðalega mál ráðherrans snýst um hvernig hann sjálfur hefur höndlað fyrirspurn sem honum barst. Hann var með skýrslu Ríkisendurskoðunar á borði sínu á þessum tíma. Við höfum öll lesið hana og vitum hvaða upplýsingar voru í henni. Svar hans við beiðni formanns bankaráðs Landsbankans lá á borði hans sem hann svaraði nokkrum dögum síðar, svar við bréfi um beiðni um aðstoð hvernig ætti að leysa úr þessu alvarlega og stóra tapmáli Landsbankans. Að koma hér og reyna að hvítþvo sig með því að ráðast á þingmann og til viðbótar að taka upp úr fréttum einhver orð um siðprúðar konur og gera það væntanlega að afli okkar kvennanna á þingi, er svo fyrir neðan allar hellur að ég blygðast mín fyrir að verða vitni að því sem er að gerast hér.