Svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:59:13 (7180)

1998-06-02 10:59:13# 122. lþ. 139.93 fundur 429#B svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að ræða eðli óundirbúinna fyrirspurna í þinginu miðað við þann skilning sem virðist vera hjá stjórnarandstöðunni. Við ráðherrar reynum að svara í óundirbúnum fyrirspurnum eftir bestu getu en ef við höfum ekki ákveðnar upplýsingar og getum ekki staðfest ákveðnar tölur, erum við þá að segja ósatt? Er það að segja ósatt að geta ekki staðfest ákveðnar tölur vegna þess að menn hafi ekki upplýsingarnar? Liggur þá á okkur sú skylda að svara því síðar ef ekki er eftir því leitað? Er það kannski að segja ósatt? Ég held að mjög mikilvægt sé að það sé rætt á meðal þingmanna hvað það er að segja ósatt. Ég hef aldrei lært það í lífi mínu að það væri að segja ósatt ef maður gæti ekki staðfest ákveðna hluti og vissi ekki um hlutina. (ÁRJ: En ef maður veit um þá?) Ef maður veit um þá, já, þá er það að segja ósatt. (ÁRJ: En vissi hann ekki um þetta?) Hæstv. viðsk.- og iðnrh. hafði ekki þessar upplýsingar. (Gripið fram í.) Það má vel vera að þær hafi verið á skrifborðinu uppi í ráðuneyti. Það er okkur ekki nægilegt í óundirbúnum fyrirspurnum eða er þingmaðurinn svo vel gefin að hún læri allt sem hún les og viti það nákvæmlega, --- hún þurfi bara að lesa það einu sinni og ef hún hefur einu sinni lesið það, þá sé öruggt að hún muni það, en þar með sé hún að segja ósatt ef hún gleymir því? (ÁRJ: Ég hélt að þetta væri ekkert smámál.) Smámál. Þetta er ekki spurningin um það, hv. þm. Það er alvarlegt að bera á aðra að segja ósatt. En ég hef aldrei heyrt þessa skilgreiningu á sannleikanum fyrr og hef ég þó gengið til spurninga.