Svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:08:35 (7185)

1998-06-02 11:08:35# 122. lþ. 139.93 fundur 429#B svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:08]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við þá efnislegu niðurstöðu sem forseti komst að hér áðan og kallar úrskurð. Það er í kannski aukaatriði en ég hef sjálf skilið eðli óundirbúinna fyrirspurna eins og hann hefur lýst hér og geri ekki athugasemdir við það. Ég tel það í raun vera algert aukaatriði í þeirri sennu sem hér á sér stað.

Ég verð að segja það að mér finnst þessi atlaga að hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur alveg fáránleg þrátt fyrir að hún hafi í einhverjum útvarpsþætti lýst misskilningi sínum á eðli óundirbúinna fyrirspurna í þinginu og hvernig þær eiga sér stað. Það er ekki aðalatriði málsins, herra forseti. Aðalatriði málsins er hvort minni hæstv. viðskrh. nái frá skrifborði hans í viðskrn. og hingað niður á þing eða ekki. Um það snýst þetta mál. Það er alvarlegt mál ef svo er ekki, herra forseti. Mér finnst að með þessari atlögu sé verið að kasta ryki í augu fólks. Það hvernig hv. þm. skildi munnlegar fyrirspurnir er í raun og veru algert aukaatriði í því stóra máli sem hér er til umfjöllunar.