Svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:10:11 (7186)

1998-06-02 11:10:11# 122. lþ. 139.93 fundur 429#B svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:10]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er ágætt að það er komið á hreint eftir þessa umræðu hvernig að óundirbúnum fyrirspurnum er staðið. En ég heyri að sumir hv. þm. hafa því miður ekki fylgst með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um þetta mál að undanförnu.

Staðreyndin er að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spurði hvort ég gæti staðfest að tap Lindar eða tap Landsbankans vegna Lindar væri 600--700 millj. kr., hvort ég gæti staðfest að það væri rétt að tap Lindar væri 600--700 millj. kr. Ég treysti mér ekki til þess vegna þess að ég kannaðist ekki við þessar tölur úr þeim gögnum sem ég hafði verið með á skrifborði mínu í ráðuneytinu. Þar kom fram að það væru um 400 millj. kr. í ábyrgðir.

Af því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði að mikilvægt hefði verið að láta það koma fram að málið væri í skoðun, þá verð ég að biðja hv. þm., herra forseti, að lesa umræðuna. Ég segi við þessa umræður að ég viti að útlánatöp Landsbankans séu í sérstakri skoðun hjá bankaráðinu. Ég kom því á framfæri að þetta mál væri til sérstakrar skoðunar. Mér var hins vegar ekki heimilt að upplýsa Alþingi um efnisinnihald þeirrar skýrslu sem ég hafði í höndum vegna þess að hún var rannsóknargagn í því máli sem bankaráð Landsbankans var með til umfjöllunar á þessum tíma. (ÁRJ: Af hverju sagðirðu það ekki?)

Ef hv. þm. hefði viljað fylgja fyrirspurn sinni eftir þá hefði hann getað gert það. Hann hefði haft mörg önnur tæki til þess að fá upplýst hvert tap Lindar vegna Landsbankans var vegna þess að Ríkisendurskoðun heyrir beint undir Alþingi. Hv. þm. hefði getað snúið sér til Ríkisendurskoðunar og beðið Ríkisendurskoðun að rannsaka þetta mál sérstaklega. Það gerði hv. þm. ekki. Hv. þm. leitaði ekki og notaði ekki þau tækifæri sem hv. þm. hafði til þess að upplýsa þetta mál. Hann kaus að fara með, í þeirri umræðu sem núna hefur verið um þetta mál, ósannindi á ósannindi ofan. Þingmaðurinn hefur orðið uppvís að því við þessa umræðu í dag.