Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:19:09 (7188)

1998-06-02 11:19:09# 122. lþ. 139.94 fundur 430#B Schengensamstarfið# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er e.t.v. nauðsynlegt að ræða form utandagskrárumræðunnar líka hér á Alþingi. Ég hef nýlega svarað skriflegri fyrirspurn frá hv. þm. Hann hefur síðan lagt á borð þingmanna fyrirspurn í 12 liðum sem hann ætlar mér að svara en hann hefur hins vegar notað tíma sinn í allt annað en þessar fyrirspurnir. En ég ætla samt að reyna að svara þeim í stuttu máli þó að það verði áreiðanlega ekki fullnægjandi, en ég verð að segja það alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst óeðlilega að þessu staðið. En það er vandsvarað á Alþingi því að ef maður segir ekki allt sem maður veit segir maður víst ósatt. Það er alla vega ekki hægt í þessu máli því eins og hv. þm. sagði, þá er þetta upp á fleiri hundruð blaðsíður. En það er skilgreining stjórnarandstöðunnar á Alþingi að ef ekki er allt sagt sem maður veit, þá er maður ósannindamaður.

Svar við 1. spurningunni: Ríkisstjórnin hefur ekki íhugað þann möguleika að Ísland hætti við fyrirætlanir um aðild að Schengen. Í Amsterdam-sáttmálanum er kveðið á um að Schengen-samstarfið skuli áfram byggjast á samstarfssamningnum frá 1996 og á þeim grunni er unnið.

2. Norræna vegabréfasambandið er einn af hornsteinum Norðurlandasamstarfsins og fyrirsjáanlegt er að það hefði lagst undir lok ef Ísland og Noregur hefðu staðið utan Schengen-samstarfsins. Auk þess eflir Schengen-samstarfið pólitísk tengsl Íslands við Norðurlöndin og önnur ESB-ríki.

3. Vonast er til að samkomulag innan ESB um grundvöll til samningaviðræðna við Ísland og Noreg um Schengen-samkomulagið komist á á næstu vikum.

4. Ríkisstjórnin mun ekki gerast aðili að samkomulagi sem brýtur gegn stjórnarskránni og ætti ekki að þurfa að segja það. Utanrrn. hefur látið vinna lögfræðilegt álit um Schengen-samstarfið og stjórnarskrána og við það verður stuðst í samningaviðræðunum.

5. Aðild að Schengen-samstarfinu felur í sér réttindi og skyldur eins og aðild að öllum milliríkjasamningum. Kostir og gallar aðildar voru metnir af ríkisstjórninni áður en farið var út í viðræður um aðild að Schengen og var það mat hennar að hag Íslands væri best borgið innan Schengen-samstarfsins.

6. Strandveiðar eru skilgreindar sem veiðar sem fram fara á skipi sem snýr hvern dag eða eftir nokkra daga til hafnar á Schengen-svæðinu án þess að koma til hafnar í þriðja ríki. Með þessum skipum þarf að öllu jöfnu ekki að hafa eftirlit á grunni Schengen. Þó skal það gert með svokölluðu skyndieftirliti ef landamæri þriðja ríkis eru nálægt en það á ekki við um Ísland.

7. Segja þarf upp samningum um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritunar við eftirtalin ríki ef Ísland gerist aðili að Schengen: Bahamaeyjar, Barbados, Botsvana, Dóminíka, Grenada, Jamaíka, Kíríbatí, Lesótó, Malaví, Salómonseyjar, Sankti Lúsía, Sankti Vinsent og Grenadín, Seychelleseyjar, Svasíland, Trínidad og Tóbagó og Túvalú.

8. Ríkisstjórnin hefur hvorki látið gera sérstaka úttekt á hættunni á misnotkun upplýsinga sem safnað verður um einstaklinga í Schengen-upplýsingakerfið né á vegum SIRENE-miðstöðvanna. Ástæðan er sú að mjög sterkar reglur eru um vernd persónuupplýsinga í Schengen-samningnum og mælir hann t.d. fyrir um lágmarksvernd samkvæmt Evrópusamningnum um vernd persónuupplýsinga.

9. Þar vil ég vísa í skriflegt svar dags. 16. apríl 1998, lið 7.

10. Vísa ég jafnframt í skriflegt svar dags. 16. apríl 1998, lið 10.

11. Við hönnun hefur þess verið gætt að þátttaka sé möguleg gerist Ísland aðili að Schengen-samstarfinu.

12. Íslenskir flugrekstraraðilar hafa verið jákvæðir í garð Schengen-aðildar í samtölum sínum við utanrrn. en hafa lagt áherslu á að Schengen-samstarfið muni hvorki leiða til aukins kostnaðar fyrir þá né tafa á flugumferð.

Herra forseti. Samningaviðræður um aðild okkar að Schengen eru ekki hafnar en ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að það skipti afar miklu máli fyrir Ísland að við verðum aðilar að þessu samstarfi á sama hátt og hin Norðurlöndin. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef það verður ekki, þá er Norræna vegabréfasambandið rofið með þeim afleiðingum sem það hefur á norrænt samstarf. Ég heyri það á hv. þm. að hann hefur engar áhyggjur af því. Á að skilja hann svo að flokkur hans allur og kannski hinn nýi sameinaði flokkur sé þeirrar skoðunar að við eigum ekki að gæta hagsmuna Íslands í þessu máli, eins og mér heyrist á hans málflutningi?