Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:27:01 (7190)

1998-06-02 11:27:01# 122. lþ. 139.94 fundur 430#B Schengensamstarfið# (umræður utan dagskrár), RA
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:27]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er ljóst að Schengen-samstarfinu fylgja gríðarlega umfangsmiklar og kostnaðarsamar skuldbindingar fyrir okkur Íslendinga ef af yrði. Það er ljóst að Íslendingar væru þarna að taka að sér landamæravörslu fyrir meginþorra ríkja Evrópusambandsins, væntanlega vel yfir 300 millj. manna sem búa á því svæði sem Schengen-samningurinn næði yfir og við þyrftum að leggja í gífurlega mikinn kostnað á Keflavíkurflugvelli við að byggja upp nýja farþegaaðstöðu sem er talin munu kosta milli 600--700 millj. kr. Þó að eitthvað af þeim kostnaði sé engu að síður óhjákvæmilegur er ljóst að meginhluti kostnaðarins er afleiðing af hugsanlegu Schengen-samstarfi. Vissulega verður tolleftirlit áfram gagnvart íbúum á Schengen-svæðinu en það er hins vegar ljóst af öllum staðreyndum málsins að hætta er á því að aðstaða til tolleftirlits muni verulega versna með þeim afleiðingum sem það gæti haft í för með sér.

Nú hefur Evrópusambandið yfirtekið Schengen-samning\-inn og ljóst er að upp er komið stjórnskipulegt klúður, að ekki sé meira sagt. Íslendingar eiga ekki aðild sem betur fer að Evrópusambandinu en Evrópusambandið ætlar að fara að stjórna framkvæmd þessa samnings og ég tel að nú sé því komið rétta tækifærið til þess fyrir okkur Íslendinga að snúa við af þeirri óheillabraut sem þarna hefur verið mörkuð og láta þetta Schengen-samstarf lönd og leið.