Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:29:32 (7191)

1998-06-02 11:29:32# 122. lþ. 139.94 fundur 430#B Schengensamstarfið# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:29]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að taka undir þau orð hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur og hæstv. utanrrh. að svo skammur tími til umræðu um svo flókið mál er frekar óhentugt fyrirkomulag og vil ég hvetja til þess að þetta mál verði tekið til umræðu á annan hátt á þinginu en í hálftímaumræðu.

Ekki er hægt að neita því að tengsl okkar við Evrópusambandið eins og þau eru í dag og sú þróun sem hefur átt sér stað innan Norðurlandanna, að nokkur þeirra eru orðin aðilar að Evrópusambandinu á meðan Noregur og Ísland standa utan þess, gera samstarf Íslendinga á norrænum vettvangi erfiðari en verið hefur. Það er ekki síst með tilliti til þessa samstarfs sem Schengen-samstarfið er freistandi fyrir Íslendinga. Það er freistandi fyrir okkur að reyna á allan mögulegan hátt að efla tengsl okkar við Norðurlöndin og efla tengsl okkar við þau ekki síst sem málsvara ákveðinna hagsmuna innan Evrópusambandsins. Það hefur verið gert með því að breyta Norðurlandasamstarfinu mjög verulega en þetta tengist einnig umræðunni um samstarfssamninginn sem Ísland og Noregur hafa nú við Schengen-ríkin.

Mér finnst ástæða til að líta á þessi mál í utanrmn. Það liggja raunar mjög viðamikil gögn um þetta mál í nefndinni sem sérhverjum nefndarmanna er fært að skoða til að búa sig undir að þetta mál komi til kasta þingsins.