Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:38:14 (7195)

1998-06-02 11:38:14# 122. lþ. 139.94 fundur 430#B Schengensamstarfið# (umræður utan dagskrár), Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:38]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir að svara fyrirspurnum mínum þó í knöppu formi sé. Ég hef fullan skilning á því sjónarmiði hæstv. ráðherra að óheppilegt sé að ræða svo viðamikið mál innan þess forms sem hér er gefið eins og margir þingmenn hafa bent á. Það er ekki mín sök. Ég hef auðvitað lagt áherslu á að fá miklu meiri tíma fyrir umræðu um þetta stóra mál.

Það kemur út af fyrir sig ekki mikið nýtt fram hjá hæstv. utanrrh. í svörum hans við fyrirspurnum mínum annað en það að stefna ríkisstjórnarinnar er óbreytt, samningaviðræður séu ekki hafnar og grundvöllurinn ekki fundinn. Upplýsingar um kostnað liggja ekki fyrir, hvorki stofnkostnað né rekstrarkostnað umfram það sem kom fram í skriflegu svari í apríl. Þetta virðist vera staðan.

Síðan koma þingmenn úr stjórnarliðinu eins og formaður þingflokks Framsfl. hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og leggja áherslu, eins og ráðherrann, á mikilvægi norræna vegabréfasambandsins. Þetta er ekki sambærilegt mál og norræna vegabréfasambandið. Það er hins vegar reynt að selja þetta stóra mál út á norræna vegabréfasambandið, og ég hvet hv. Alþingi hafi menn ekki kynnt sér þessi mál, þar á meðal undirgögnin sem liggja í utanrmn. og allshn. um 1.600 síður með fylgigögnum þessa samnings upp á 100 síður, að fara yfir málið. Hluti af þessu er hættan á misnotkun varðandi persónuvernd. Ég hef dreift á borð þingmanna, og hef fengið leyfi til þess, útdrætti eða úrklippu úr Bergens Tidende 30. maí þar sem rakið er hvernig brotin eru sjálf fyrirmæli samningsins varðandi persónuvernd og ekki fáist svar ár eftir ár við upplýsingum þessarar eftirlitsstofnunar sem hæstv. utanrrh. mælti svo mikið með eða taldi að væri svo tryggt.

Spurningin er nefnilega, virðulegur forseti, enn þá uppi í þessu máli sem Aftenposten varpaði fram um það leyti sem Íslendingar undirrituðu samstarfssamning við Schengen --- pass union eller politistat? --- vegabréfasamband eða lögregluríki? Það er spurningin um ,,virkið`` Evrópu. Ætlum við að loka okkur þar af innan þessa ríkis með öllu því sem það kostar og þar er fórnað, einnig varðandi eftirlitsiðnaðinn sem þessu fylgir og tryggja á með margföldu tölvuskráningarkerfi.