Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:41:13 (7196)

1998-06-02 11:41:13# 122. lþ. 139.94 fundur 430#B Schengensamstarfið# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég heyri að það er mjög mikilvægt að þingmenn kynni sér þetta mál miklu betur. Ég veit að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur kynnt sér þetta mál afar vel og er vel inni í því þó að ég sé ekki sammála hans skoðunum. En að því er varðar að við séum að taka að okkur eitthvert gífurlegt starf til að verja ytri landamæri Evrópusambandsins, þá tel ég það ekki vera rétt.

Það er hins vegar ljóst að þeir farþegar sem koma hér inn í landið eru þar með komnir inn á þetta svæði og þeir sem koma inn í önnur lönd hafa þá rétt til að koma til Íslands. Í þessu felast tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu að mínu mati og er það ekki einhvers virði fyrir Íslendinga að geta ferðast óhindrað til allra þessara landa? Er það ekki einhvers virði fyrir þá að þurfa ekki að kaupa sér dýr vegabréf svo að eitthvað sé nefnt. Já, menn hlæja að því, það þykir kannski allt í lagi fyrir fimm manna fjölskyldu sem er að fara til Spánar að borga yfir 20 þús. kr. fyrir vegabréfin. Það getur vel verið að til sé sú fjölskylda sem þykir það vera einhverjir peningar þó að einhverjum hv. þm. þyki það ekki. (HG: Það á að innleiða annars konar ...) En þannig er þetta nú. Jú, það verða önnur skilríki en það verða ekki jafndýr skilríki og verða skilríki sem menn nota eins og hver önnur skilríki. Allir þurfa að vera með einhver persónuskilríki þannig að í þessu felast miklir kostir. En auðvitað er aðalatriðið pólitísks eðlis. Viljum við halda áfram að starfa með Norðurlöndunum? Viljum við halda áfram að starfa með Evrópu? Það er stóra málið. Ég fullyrði að ef menn vilja það ekki, þá er það einangrunarstefna, og ég tek eftir því að enginn fulltrúi Alþfl. tekur þátt í þessari umræðu.