Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:57:11 (7199)

1998-06-02 11:57:11# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, Frsm. minni hluta MF
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:57]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er orðinn nokkur tími síðan þessi tillaga var afgreidd frá utanrmn. en á þskj. 1374 hef ég sent frá mér nál. sem minni hluta utanrmn. en þar segir, með leyfi forseta:

Í framhaldi af miklu umróti og hræringum í Evrópu á níunda áratugnum, sem náðu hámarki í kringum 1990, ríkti veruleg bjartsýni um að kalda stríðinu væri lokið. Miklar væntingar voru um að við tækju bjartari tímar bæði í Evrópu og víðar um heim. Forsendur virtust hafa skapast til þess að sameina Evrópu og kasta fyrir róða skiptingu álfunnar í tvær meginblokkir. Margir töldu að í kjölfar þess að Varsjárbandalagið var lagt niður yrði ekki lengur þörf fyrir hernaðarbandalagið NATO, sem grundvallast á kjarnorkuvígbúnaði, heldur yrði þess í stað leitast við að þróa öryggiskerfi í Evrópu sem líklegt væri til að styrkja lýðræðisþróunina í Evrópu allri, ekki síst í ríkjum Austur-Evrópu.

Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á allri umræðu um öryggis- og friðarmál. Hugtakið öryggi hefur fengið víðari merkingu en áður og vísar nú ekki eingöngu til stjórnmálakerfis og hernaðarstyrks heldur, og ekki síður, til öryggis í umhverfismálum, félagslegs öryggis, efnahagslegs öryggis og fleiri þátta. Þingflokkur Alþýðubandalags og óháðra hefur í málflutningi sínum lagt áherslu á að skynsamlegt væri að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, yrði efld sem sameiginlegt friðar- og öryggisbandalag Evrópu þar sem allar þjóðir Evrópu ættu þátt í mótun og framkvæmd nýrrar stefnu í öryggis- og friðarmálum. Stefnu sem frá grunni byggðist á breyttu alþjóðlegu umhverfi og breyttum áherslum.

Þingflokkur Alþýðubandalags og óháðra telur brýnt að fjallað sé um stækkun Atlantshafsbandalagsins í víðu samhengi. Þær þjóðir sem lagt er til að fái inngöngu í NATO hafa vissulega sjálfar óskað eftir aðild og að sjálfsögðu ber að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Áhersla Austur-Evrópuþjóða á að efla tengsl sín við Vesturlönd er einnig skiljanleg í ljósi þeirra þrenginga sem þau hafa gengið í gegnum undanfarna áratugi. En val forsvarsmanna Atlantshafsbandalagsins á þeim þremur ríkjum sem lagt er til að fái inngöngu í NATO nú hlýtur þó að teljast umdeilanlegt. Mörg önnur ríki hefðu fremur, eða ekki síður, þurft á nánari tengslum við Vesturlönd að halda, m.a. Eystrasaltsríkin, en nú þegar heyrast þær raddir frá háttsettum talsmönnum NATO að þeim ríkjum liggi ekkert á.

Sú stækkun Atlantshafsbandalagsins sem nú er lögð til getur haft í för með sér vaxandi ófriðarhættu og skapað spennu, m.a. vegna afstöðu Rússa og nánustu grannríkja þeirra, og hætta er á nýrri skiptingu Evrópu í stað þess að stuðla að sameiningu Evrópu allrar með mótun nýrrar stefnu í þágu öryggis og friðar.

Þá blasir einnig við að hernaðarbandalagið NATO áskilur sér enn rétt til að beita að fyrra bragði kjarnorkuvopnum þrátt fyrir niðurstöðu dómstóla í Haag.

Því er ljóst að skipulag og starfsemi hernaðarbandalagsins byggist að hluta enn á forsendum og viðhorfum sem voru ríkjandi á tímum kalda stríðsins. Þingflokkur Alþýðubandalags og óháðra fellst ekki á að þessar forsendur eigi að ráða ferðinni við uppbyggingu öryggis- og friðarsamstarfs í sameinaðri Evrópu.

Virðulegi forseti. Með vísan til þessa mun ég, fulltrúi Alþb. og óháðra í utanrmn. sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.